Tryggingastofnun flytur vegna myglu

Tryggingastofnun flytur líklega úr húsnæði sínu við Laugaveg á næsta …
Tryggingastofnun flytur líklega úr húsnæði sínu við Laugaveg á næsta ári. mbl.is/Ófeigur

Tekin hefur verið ákvörðun um að flytja Tryggingastofnun ríkisins úr húsnæði sínu við Laugaveg þar sem hún hefur verið í áratugi, vegna myglu. Ekki hefur verið ákveðið hvert stofnunin flytur en Sigríður Lillý Baldursdóttir forstjóri vonast til að það verði gert á næsta ári.

Yfir 20 starfsmenn veikst og nokkir hætt

Aðspurð segir hún að ríflega 20 starfsmenn Tryggingastofnunar hafi veikst eða fundið fyrir vanlíðan sem hefur verið rakin til myglunnar. Hún greindist fyrst í húsnæðinu undir lok desember í fyrra. Starfsmenn stofnunarinnar eru um 100 talsins.

Einn starfsmaður hefur sagt upp vegna myglunnar eftir að hafa ekki treyst sér til að mæta aftur til starfa vegna veikinda henni tengdum. Sigríður Lillý segir að líklega hafi myglan einnig haft áhrif í brotthvarfi tveggja annarra starfsmanna.

„Þetta er ekki einfalt þegar um opinberar stofnanir er að ræða,“ segir hún um flutninginn og bætir við að stofnunin sé að vinna að þarfagreiningu og húsrýmisáætlun í samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins.

Hreinsun gekk ekki samhliða starfseminni

Fyrst um sinn var reynt að hreinsa mygluna út úr húsnæðinu og fólk var flutt til í húsinu en það gekk ekki upp. Ákvörðunin um flutninginn var tekin eftir að fólk kom úr sumarleyfum sínum í lok sumars og heilbrigðisráðuneytið féllst á hana. „Þá var þetta svo augljóst að okkur var ekki að takast að hreinsa húsnæðið þannig að það væri hægt að nýta það samhliða því að vera með starfsemi í húsinu.“

Sigríður Lillý Baldursdóttir.
Sigríður Lillý Baldursdóttir.

Fimmta hæðin ónýt

Fimmta hæð byggingarinnar, sem er sú efsta, var afgreidd ónýt vegna myglunnar og stóðu vonir til þess að endurbætur á hæðinni myndu duga til vinna bug á vandanum, ásamt hreinsun myglu á öðrum hæðum og lokun kjallarans. Það gekk ekki eftir samhliða starfseminni. „Um leið og farið er að rótast í sýktum svæðum þá ýfa menn upp myglugró og þá í rauninni gusu upp veikindi hér hjá okkur. Svo við óskuðum eftir að þær framkvæmdir yrðu stöðvaðar og litum til þess frekar að flytja okkur í annað húsnæði.“

Hún tekur samt fram að ekki sé þar með sagt að húsnæðið við Laugaveg sé ónýtt. Það fólk sem hefur fundið fyrir vanlíðan vegna myglunnar hefur verið flutt í bráðabirgðahúsnæði þar sem innangengt er á Laugaveg 118 en stofnunin er til húsa á Laugavegi 114 og 116. „Ef menn óska eftir því og telja sig vera að finna fyrir slíku þá bregðumst við auðvitað við og flytjum þá.“

Tryggingastofnun ríkisins.
Tryggingastofnun ríkisins. mbl.is/Árni Torfason

Mikilvægt að gæta að heilsu starfsmanna

Sigríður Lillý segir að nóg sé að gera hjá Tryggingastofnun fyrir og því hafi myglan og allt það sem henni fylgi valdið auknum vanda og álagi. „Það er alveg óþarfi að bæta ofan á reksturinn, það er nóg að gera samt þó að við fáum ekki þetta. Það er líka mjög mikilvægt að gæta að heilsu starfsmanna og búa þeim til góðar starfsaðstæður, að þeir búi ekki við heilsuspillandi húsnæði,“ greinir hún frá og bætir við að málið hafi verið unnið í góðri sátt og samstarfi við starfsmenn. 

Enn eru framkvæmdir í húsinu. Verið er að ljúka við endurbætur á fimmtu hæðinni og leitað er leiða til þess að ræsta betur þá staði sem búið er að loka fyrir starfsemi á vegna myglunnar.

Forstjórinn tekur fram að mygla hafi ekki greinst í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar.

Hún býst við því að auglýst verði eftir nýju húsnæði fyrir stofnunina og að líklega verði um leiguhúsnæði að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert