Annað og meira en reynsla og kjöt

Margrét Lóa hjá Sólfarinu með hundinn sinn Dylan við opið …
Margrét Lóa hjá Sólfarinu með hundinn sinn Dylan við opið haf þar sem hægt er að horfa til fjalla. mbl.is/Árni Sæberg

Hún ætlar að gefa sína tíundu ljóðabók út sjálf og selur hana í forsölu á Karolinafund, sem og ljóðapúða og ljóðataupoka. Margrét Lóa Jónsdóttir ljóðskáld hugleiðir fyrirbærið bið í nýju ljóðabókinni biðröðin framundan. Hún segir biðina eiga sér margar hliðar, bjartar og dimmar, en kveikjan að bókinni hafi verið fréttir af fólki í biðröðum sem og Costco-æðið á Íslandi.

„Mér finnst sjálfsútgáfuheimurinn spennandi, Karolinafund veitir listamönnum tækifæri til að gera eitthvað á þeim tíma sem þeim hentar. Veraldarvefurinn opnar líka margar dyr fyrir grasrótina. Ég gaf fyrstu ljóðabókina mína út þegar ég var 18 ára en þá var fólk að selja sínar bækur sjálft á kaffihúsum og börum,“ segir Margrét Lóa Jónsdóttir ljóðskáld sem safnar nú á Karolinafund fyrir útgáfu á ljóðabókinni sinni, biðröðin framundan.

„Mér finnst gaman að endurspegla það sem er ofarlega á baugi í samfélaginu. Ég safnaði fréttum um biðraðir og hef verið að gera óvísindalega rannsókn, ég hef spurt fólk sem ég hitti hvort það hafi farið í Costco og hvernig því hafi líkað. Og ég fylgist með Costco-síðunni. Í nýju bókinni er ég að skoða fyrirbærið biðröð alveg gagnrýnislaust og þó sögusviðið sé vissulega biðröðin fyrir utan Costco, þá fer ljóðmælandinn aldrei þar inn, áherslan er á það sem er í kring og samskipti fólks í röðinni. Það er ákveðin samkennd sem myndast meðal fólks í biðröðum. Íslendingar virðast vera duglegir við að bíða í röð, hér hefur fólk til dæmis beðið í röð á náttfötum til að fá mögulega dúnsæng. Þetta er því mjög íslensk bók þar sem víkingaklappið og villtur refur koma meðal annars við sögu.“

Margrét Lóa segir nýju bókina innihalda samfelldan ljóðabálk. „Ljóðabálkar gefa tækifæri til að segja sögu og láta hugann reika, rétt eins og þegar við erum í biðröðum. Þessi röð sem ljóðmælandinn er í, getur í raun verið hvaða röð sem er. Eitt erindið fjallar um fræga röð á Laugavegi, þegar ég fer til að kaupa kleinuhring handa mömmu sem liggur á spítala. Þegar við erum svo lánsöm að geta glatt einhvern sem er hryggur eða veikur, þá skiptir engu hvaðan gott kemur,“ segir Margrét Lóa og tekur fram að hún sé á léttum nótum í nýju bókinni.

„Það er ákveðinn húmor í þessari bók, og ég er þakklát fyrir að geta verið þar, í gleðinni. Ég er líka að fást við núið og það er hægt að finna áhrif frá allskyns trúarbrögðum og sjálfshjálparhugleiðingum í bókinni. Hvað ætlarðu að gera þegar þú hangir í biðröð? Ætlarðu að fyllast neikvæðni eða reyna að njóta þess að hvíla í núinu?“

Lágvært hljóð í koki

Pulsubiðröð. Þetta fólk leggur það á sig að standa í …
Pulsubiðröð. Þetta fólk leggur það á sig að standa í röð til að fá pulsu. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Margrét Lóa segir að útgangspunkturinn í bókinni sé fyrirbærið bið.

„Biðin á sér margar hliðar, biðin getur verið skemmtileg og full af eftirvæntingu, en bið getur verið skelfilegt fyrirbæri. Til dæmis biðin fyrir flóttamenn eftir því hvort þeir fá hæli eða ekki. Eða þrúgandi biðin þegar foreldrar unglings vita ekki um barnið sitt og bíða milli vonar og ótta eins og ég fjalla líka um í bókinni. Vonin er mikilvægt afl í tilveru okkar. Við þurfum að sjá vonina í þessu öllu saman. Og vonin tengist biðinni,“ segir Margrét Lóa og bætir við að bið sé tilvalið fyrirbæri til að draga fram andstæður.

„Þegar ég heyrði af gíraffa í raunstærð í Costco, þá fór ég að hugsa um allt það sem hreyfir við okkur. Lykt og hljóð til dæmis. Ég bý í hverfi þar sem er verið að byggja og þar eru endalausir jarðskjálftadynkir af mannavöldum. Þetta varð til þess að ég fór að hugsa um þetta hæsta spendýr jarðar, gíraffann, sem gefur frá sér lágvært hljóð sem myndast í kokinu og heyrist vart. Allar þessar andstæður. Og við mannfólkið sem erum hluta af náttúrunni,“segir Margrét Lóa hugsi og fer með beina tilvísun í sálmaskáldið Hallgrím sem er að finna í bókinni hennar: „Lífið manns hratt fram hleypur, hafandi enga bið.“

Fátækt er falin á Íslandi

Opnun Costco. Fólk í röð með tómar körfur, bíðandi eftir …
Opnun Costco. Fólk í röð með tómar körfur, bíðandi eftir að fylla þær. mbl.is/Kristinn Magnússon


„Við erum annað og meira en reynsla og kjöt, eins og ég segi á einum stað í bókinni. Þegar ég var í Níkaragva sá ég þessar miklu andstæður og sáru fátækt. En fátækt er falin á Íslandi, á sama tíma og ég yrki um demanta á stærð við varir mínar sem fást í Costco,“ segir Margrét Lóa. Ljóðin segir hún flest vera frá því í sumar, og eitt og eitt frá því í haust en hún ítrekar að það sé þó ekkert hauströkkur í bókinni hennar.

„Auðvitað er moll inn á milli, ég verð að fylgja hjartanu. Dauðinn er alltaf nálægur og hann er áminning um að gera það besta á hverju einasta andartaki. Maður getur ekki alltaf verið fullkominn en við verðum auðvitað alltaf að reyna að vera ærlegar manneskjur.“

Vert er að geta þess að Margrét Lóa var valin skáld vikunnar nýlega á vefnum skáld.is, sem er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Þar má lesa nánar um rithöfundarferil Margrétar Lóu og verkin hennar.

Hægt er að kaupa bókina fyrirfram, ljóðapúða og taupoka

Slóðin á verkefni Margrétar Lóu á Karolinafund.com er: biðröðin framundan

Þar gefst fólki kostur á að kaupa bókina fyrirfram, og þannig safnar Margrét fyrir eigin útgáfu. „Ég get haft bókina á hóflegu verði með því að selja hana svona fyrirfram. Ég er með ýmsa pakka í boði, fólk getur ýmist keypt bókina staka, magntilboð með þremur árituðum bókum, bók ásamt ljóðapúða með áprentuðu ljóði eða taupoka með áprentuðu ljóði og mynd. Fyrstu tuttugu eintökin eru á hagstæðu verði. Þeir sem fara inn á söfnunarsíðuna sjá að þetta er eins og lítil búð, þar sem hægt er að fá eitt og annað í tenglsum við biðröðina framundan.“

Viktoría, eldri dóttir Margrétar, er höfundur teikningarinnar á bókarkápu, og María Lísa Alexía, yngri dóttir hennar, tók myndina af henni á bókarkápunni.

Nokkur brot úr bókinni

biðin eftir því að fullorðnast
fyrsta stefnumótið einsog varða á heiði
sem komin er að hruni
man að ég hafði enga löngun
til að reyna að stjórna aðstæðum
vissi að ég var
allt sem þú þráðir

sumar minningar stinga upp kollinum
líkt og eiturörvar
meðan aðrar kyrra hjartað
einsog mosadyngjur í óbyggðum
framandi lönd
neysluhaugar
hungur
við erum annað og meira
en reynsla og kjöt

að muna...
muna að æfa sig í hugrekki
muna að draga andann djúpt
muna að þakka
muna að sjá aldrei eftir neinu

sjávarsýn bak við augu mín
ástarævintýri sem ég læt á móti mér
(hik er ekki endilega sama og tap)
ég er hluti af öllu sem fyrirfinnst
hvorki stærri né minni en aðrir

salt jarðar
laufblöð
mold
vængbrotinn fugl á klettanybbu
lifi lífið
líf næturgala jafnt sem
sérhverrar syngjandi krybbu

að leita orða
skálda sól á þungbúinn himin
semja tungumál handa
ímyndaðri blekflugu...
öll leitum við verðmæta

lifi kærleikurinn
lifi margbreytileikinn
biðröðin framundan
handryksugur og heimsins
bestu jarðarber
lifi lífið

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »