Framtíð Bláfjallasvæðis ræðst af skýrslu

Bláfjöll eru vinsæl á meðal skíðaáhugamanna.
Bláfjöll eru vinsæl á meðal skíðaáhugamanna. mbl.is/Golli

Skýrsla um vatnsvernd á Bláfjallasvæðinu sem starfshópur á vegum Kópavogsbæjar er að vinna er væntanleg á næstunni. Frekari uppbygging til lengri framtíðar á skíðasvæðinu í Bláfjöllum og í Þríhnjúkagígum ræðst af því hver niðurstaða skýrslunnar verður. Unnið hefur verið að henni í um eitt ár.

„Hún skiptir miklu máli uppi á það hvar framtíðarskíðasvæði íbúa á höfuðborgarsvæðinu verður og hvaða möguleikar eru á uppbyggingu á Þríhnjúkum,” segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, en stefnt er að því ljúka við skýrsluna fyrir áramót. 

Landið sem um ræðir er innan Kópavogs og liggja deiluskipulagstillögur fyrir gagnvart báðum svæðunum. Er það liður í því að klára umfjöllun um skipulag beggja svæðanna að það liggi fyrir mat og áhættugreining starfseminnar gagnvart þeirri vatnsvernd sem er í gildi.

Bláfjöll og Sandskeið eru þjóðlenda innan marka Kópavogsbæjar, samkvæmt niðurstöðu …
Bláfjöll og Sandskeið eru þjóðlenda innan marka Kópavogsbæjar, samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fara dýpra ofan í málin

Fyrir tveimur árum kom út skýrsla um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) létu vinna fyrir sig. Ármann, sem er einnig formaður SSH, segir starfshópinn sem hefur verið að störfum við gerð nýju skýrslunnar fara dýpra ofan í það sem kom fram í hinni skýrslunni og sannreyna ákveðna þætti sem snúa að þeirri vinnu sem þá var unnin við gerð svæðisskipulagsins.

„Menn vildu fara dýpra í málið hvað varðar Bláfjöll og Þríhnjúka og gera sér enn betri grein fyrir því hvernig vatnsstraumarnir liggja neðanjarðar á þessum tilteknu svæðum.“

Áhættugreiningin vegna skíðasvæðisins tengist umferðinni í kringum svæðið og mengun vegna hennar en ekki hugsanlegri snjóframleiðslu, sem Ármann segir að hafi enga mengun í för með sér.

Reykjavíkurborg sér um rekstur skíðasvæðisins fyrir hönd sveitarfélaganna. Samkomulag liggur fyrir á meðal SSH um að horfa til frekari uppbyggingar í Bláfjöllum. Huga þarf að endurnýjum búnaðar og styrkingu aðstöðu á skíðasvæðinu. Einnig eru uppi áform um snjóframleiðslu til að bæta þar nýtingu og þjónustu.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki byggingaland til skamms tíma

Nýfallinn dómur Hæstaréttar Íslands þar sem úrskurður héraðsdóms var staðfestur um að Bláfjöll og Sandskeið væri þjóðlenda innan marka Kópavogsbæjar sýnir að sögn Ármanns hvar mörk sveitarfélaga liggja og einfaldi því alla stjórnsýslu eftir áratugadeilu um þessi mörk.

Hann segir að 3.000 hektararnir sem Kópavogsbær hefur nú skipulagsvald yfir verði ekki notaðir sem byggingaland til skamms tíma. Síðar meir gæti  landið verið notað til uppbyggingar á skíðasvæðinu eða í Þríhnjúkagígum en það fari eftir niðurstöðu skýrslunnar um vatnsverndina.

Allt ágreiningssvæðið nam tæpum 8.000 hekturum og á því svæði voru 5.000 hektarar sem Kópavogsbær taldi að væru í lögsögu sveitarfélagsins en það nær yfir Bláfjöll, Þríhnjúkagíga og Sandskeið.

3.000 hektararnir eru innan rauða svæðisins.
3.000 hektararnir eru innan rauða svæðisins. Kort/Kópavogsbær

Ármann tekur fram að 3.000 hektara svæðið sem um ræðir sé ekki í Bláfjöllum og nefnir að ef Kópavogsbær hefði tapað málinu hefði bærinn minnkað um 5.000 hektara. „En okkur fannst deilan raunverulega snúast um þessa 3.000 hektara," segir hann. 

„Nú eru þessi sveitarfélagamörk algjörlega á hreinu. Bláfjöllin og allt það svæði niður í byggð er klárlega í Kópavogi, um það verður ekki deilt.”

Hann segir að samkvæmt dómnum sé allt vatnsforðabú höfuðborgarsvæðisins núna innan lögsögu Kópavogs. Í þeim skilningi fylgir þessari niðurstöðu mikil ábyrgð.

Fjölmargir leggja leið sína í Bláfjöll á veturna þegar aðstæður …
Fjölmargir leggja leið sína í Bláfjöll á veturna þegar aðstæður leyfa. mbl.is/Styrmir Kári

Vonast eftir snjóframleiðslu og nýrri skíðalyftum

Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla, vonast til að niðurstöður skýrslunnar væntanlegu verði jákvæðar.

Hann vonar að hægt verði að kaupa snjóvélar fyrir skíðasvæðið rétt eins og er að finna á skíðasvæðum á Akureyri, Dalvík og í Tindastóli. „Þú finnur varla skíðasvæði úti í hinum stóra heimi sem eru ekki með snjóbyssur,” segir Einar. 

Spurður nánar út í endurnýjun skíðasvæðisins segir hann að þrjár gamlar stólalyftur frá árunum 1978 til 1984 séu í Bláfjöllum og Skálafelli. Þær séu orðnar barn síns tíma. Kóngalyftuna segir hann aftur á móti vera í góðu ásigkomulagi. Búið er að gera endurbætur á henni og getur lyftan núna flutt um 2.200 farþega á klukkustund, sem er aukning upp á 600 farþega frá því sem áður var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert