„Saklaus“ og alvarleg mistök

Jóhannes Helgason.
Jóhannes Helgason. Ljósmynd/Facebook

„Það sauð svolítið á mér þarna í gærkvöldi,“ segir Jóhannes Helgason, eiginmaður Töru Margrétar Vilhjálmsdóttur, í samtali við mbl.is. Hann birti langa færslu á Facebook í gærkvöldi í kjölfarið á umdeildri færslu inni á facebooksíðu Ligeglad.

Ligeglad eru gamanþættir sem hafa meðal annars hlotið Edduverðlaun sem besta leikna efnið. 

Svona leit færslan út á Facebook.
Svona leit færslan út á Facebook. Skjáskot/Jóhannes Helgason

Færsluna má sjá hér að ofan en þar stóð meðal annars undir myndinni #dyingyoung og var Tara tögguð. „Þarna er hreinlega verið að segja það beint út að vegna þess að Tara er feit muni hún deyja ung,“ skrifaði Jóhannes á Facebook í gær. 

„Að sama skapi hefur eitt og annað komið í ljós sem gerir það að verkum að maður er ekki jafn reiður í dag,“ segir Jóhannes. Um er að ræða kynningarherferð Veitna á samfélagsmiðlum en Veitur leituðu liðsinnis Ligeglad til að fá aðstoð.

„Við höfum enga ástæðu til að draga það í efa að þetta voru mistök, þetta var ekki sett inn í jafn annarlegum tilgangi og maður hélt í fyrstu,“ segir Jóhannes, sem þótti við fyrstu sýn eins og verið væri að nota Töru til að „sjokkera“ fólk.

Tara fékk símtal í morgun frá mennskju tengdri Ligeglad þar sem greint var frá því að um mannleg mistök hefði verið að ræða og einnig fékk hún afsökunarbeiðni. Auglýsingastofan Hvíta húsið hefur líka beðið Töru afsökunar, sem og Veitur.

„Það hefði ekki verið í lagi að nota Töru en eftir stendur að þótt þetta hafi verið „saklaus“ mistök voru þetta alvarleg mistök,“ segir Jóhannes en málinu er lokið af þeirra hálfu.

„Þetta voru ömurleg og alvarleg en engu að síður mistök. Fólk fær að njóta vafans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert