Súrnun sjávar ógnar Íslandsmiðum

Emmanuel Macron Frakklandsforseti (t.h.) og Nicolas Hulot, ráðherra umhverfismála í …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti (t.h.) og Nicolas Hulot, ráðherra umhverfismála í Frakklandi (t.v.) ásamt þýska umhverfisráðherranum fráfarandi, Barböru Hendricks. Myndin er tekin á loflagsþingi Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Mynd/AFP

„Víðtækar breytingar eru að verða á hafinu – þegar kemur að hitastigi, hafstraumum og efnafræðilegum eiginleikum. Súrnun sjávar er raunveruleg og alvarleg ógn sem stafar að lífríki sjávar. Kóralrifjum, sem eru fræg fyrir líffræðilega fjölbreytni, bíður svört framtíð – bókstaflega – með hækkandi hitastigi og súrnun.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Íslands sem lesin var upp á loftlagsþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. Í henni kemur fram að ástæða sé til að hafa áhyggjur af framtíð lífríkisins umhverfis Íslands og þar með sjávarútvegsins.

Bent er á að á fáum stöðum sé hnattræn hlýnun augljósari en á Íslandi. Vatnajökull, sá stærsti í Evrópu, minnki hratt, ár frá ári. „Jöklar gætu að miklu leyti horfið á einni eða tveimur öldum,“ segir í yfirlýsingunni.

Fram kemur að áhrifin á hafið hafi lengi verið falið vandamál en Ísland hafi gengið til liðs við Alliance to Combat Ocean Acidification, með það fyrir augum að vekja máls á vandanum. Íslendingar eigi mikið undir sjávarútvegi en hlýnun jarðar gæti raskað allri fæðukeðju hafsins. Fram kemur að aðeins ein lausn sé á þessum vanda. Hún felist í því að draga úr losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda. „Ísland mun halda tryggð við Parísarsamkomulagið og vinnur að því að útfæra reglur til að tryggja framgang þess.“

Hlýnun jarðar og súrnun sjávar mun hafa mikil áhrif á …
Hlýnun jarðar og súrnun sjávar mun hafa mikil áhrif á fæðukeðjuna við Íslandsstrendur. mbl.is/Rax

Bent er á að Ísland sé þegar undir viðmiðum um endurnýjanlega orkugjafa þegar kemur að rafmagni og húshitun. Orkuskiptum í samgöngum – með stuðningi hins opinbera – miði vel. Aðeins í Noregi sé hlutfall nýrra raf- og tvinnbíla hærra. Fram kemur að skipaflotinn sé eftirbátur í þessum efnum en handan við hornið séu skip sem gangi fyrir rafmagni, vetni og metanóli. „Orkuskipti þegar kemur að bíla- og skipaflotanum munu ekki verða í sviphendingu,“ segir í yfirlýsingunni en að þar liggi metnaður Íslands þegar kemur að minnkun á losun.

Í henni kemur fram að sjálfbærni í landnotkun sé mikilvægur þáttur þegar kemur að því að draga úr losun. Íslendingar þurfi að efla skógrækt, uppgræðslu, endurheimt votlendis og önnur verkefni sem stuðli að minni losun.

Loks segir að sú stefnumótun sem eigi sér nú stað vegna Parísarsamkomulagsins eigi að hjálpa Íslandi að standa skil á skuldbindingum sínum um losun. Íslendingar munu á næsta ári búa yfir góðu regluverki til að stíga mikilvæg skref með það að markmiði að sporna við loftlagsbreytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert