Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi

Hér sést sigketillinn vel.
Hér sést sigketillinn vel. Mynd/Ágúst J. Magnússon

Vegna vísbendinga um aukna virkni í Öræfajökli hefur ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, lýst yfir óvissustigi almannavarna. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu almannavarna.

Jarðskjálftavirkni hefur farið stigvaxandi í Öræfajökli síðasta árið og tilkynningar um jarðhitalykt bárust í gær. Nú undir kvöld var staðfest að breytingar á yfirborði Öræfajökuls hafa orðið. Engin merki eru um gosóra eða yfirvofandi eldgos, segir í tilkynningunni.

Lögreglan á Suðurlandi verður með vakt á þjóðveginum við Kvíá í nótt en sú ráðstöfun verður endurskoðuð eftir flug vísindamanna um svæðið. Veðurstofan hefur einnig aukið vöktun á svæðinu og fylgist vel með í samráði við jarðvísindamenn Háskóla Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Landhelgisgæslan mun fljúga með vísindamenn til að kanna aðstæður og taka sýni í fyrramálið. Þá verða frekari mælingar gerðar í og við jökulinn á næstu dögum sem gefa vonandi betri mynd af atburðarrásinni sem er í gangi.

Mynd/Eldfjalla- og Náttúruvárhópur Háskóla Íslands
mbl.is