Éljagangur norðan og austan til

Veðurútlit á hádegi í dag.
Veðurútlit á hádegi í dag.

Ekkert lát virðist vera á norðanáttinni hér á landi og meðfylgjandi köldu veðri. Í dag er útlit fyrir að vindur verði nokkuð hægur og að áfram verði éljagangur norðan og austan til á landinu. Sunnan- og vestanlands verður hins vegar að mestu þurrt og bjart með köflum, en þó virðist „veiklulegur éljabakki [...] ætla að koma nærri landi úr vestri,“ að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Frost verður á bilinu 2 til 12 stig.

Ekki er þó útlit fyrir að éljabakkinn hafi teljandi áhrif inn til landsins, þó að hans kunni að verða vart á annesjum allra vestast. 

Á morgun bætir aðeins í vind með norðaustlægri átt, 5-13 m/s, en þó má áfram búast við svipuðu veðri. Það verður þó heldur bjartara sunnan og vestan til. 

Veðurvefur mbl.is

Á sunnudag og mánudag eru litlar breytingar á veðri, norðaustlæg átt og stöku él fyrir norðan og austan, en léttskýjað annars staðar.

Á þriðjudag er þó útlit fyrir að dragi til tíðinda með allhvassri eða hvassri norðanátt.

Vakinn er þó athygli á því að mikil óvissa er í langtímaspám og því ber að taka veðurspám frá mánudegi til fimmtudags með fyrirvara. „Fólk sem hyggur á ferðalög í næstu viku er hvatt til að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert