Með fartölvuna í blæðandi höndunum

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og snemma í morgun. Karlmaður var handtekinn á sjötta tímanum í morgun vegna gruns um innbrot í læst rými í húsnæði Landspítalans – háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Hafði maðurinn m.a. veist að öryggisverði skömmu áður en lögreglan kom á vettvang. Var hann vistaður í fangaklefa í morgun.

Þá var karlmaður handtekinn á sjötta tímanum eftir að tilkynnt hafði verið um líkamsárás fyrir utan sólarhringsverslun í miðborginni.

Einnig var tilkynnt um innbrot og þjófnaði í tvo bíla.

Um tíuleytið í morgun var tilkynnt um þjófnað úr bíl í hverfi 108 og hafði m.a. fartölvu verið stolið úr bílnum. Var nokkru síðar tilkynnt um karlmann í annarlegu ástandi í hverfi 110. Var sá maður með blæðandi skurði á fingrum og fartölvu í höndunum. Játaði hann brotið þegar lögregla kom á vettvang og var vistaður í fangaklefa þegar búið var að gera að sárum hans.

Einnig var tilkynnt um eignaspjöll á bifreið í Kópavoginum á ellefta tímanum. Þar hafði verið brotin rúða í bíl og einhverju af verðmætum stolið úr bílnum. Skömmu síðar var karlmaður handtekinn, grunaður um verknaðinn. Var hann í annarlegu ástandi og því vistaður í fangaklefa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert