Stella hreint ekki í orlofi

Heiða Rún Sigurðardóttir í gervi hinnar ómótstæðilegu Stellu Blómkvist.
Heiða Rún Sigurðardóttir í gervi hinnar ómótstæðilegu Stellu Blómkvist. Ljósmynd/Saga Sig

Heiða Rún Sigurðardóttir kom heim til að leika titilhlutverkið í glænýjum glæpaþáttum um hina úrræðagóðu Stellu Blómkvist. Hún segir hlutverkið safaríkt og kærkomna tilbreytingu frá búningadramanu Poldark, sem henni þykir þó mjög vænt um, enda mikilvægt fyrir leikara að festast ekki í sama hlutverkinu. 

Í grunninn eru þetta glæpaþættir en samt ekki í raunsæisstíl eins og mynstrið hefur verið í mörgum þáttum sem komið hafa frá Norðurlöndunum á undanförnum árum. Við köllum þetta „neo-noir“, þar sem unnið er eftir noir-hefðinni en með nútímalegri útfærslum. Allt er frekar ýkt og persónurnar óraunverulegar, líklega líkari persónum í teiknimyndasögum. Þetta er svona svarthvítur heimur með erkitýpum sem manni þykir vænt um og langar að sjá aftur og aftur.“

Þetta segir Heiða Rún Sigurðardóttir í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. Hún fer með aðalhlutverkið í glænýjum íslenskum glæpaþáttum frá SagaFilm um lögfræðinginn, einkaspæjarann og einfarann Stellu Blómkvist, sem byggðir eru á samnefndum bókaflokki.

Þættirnir, sem eru sex talsins, koma í heild sinni inn í Sjónvarp Símans Premium föstudaginn 24. nóvember en verða einnig sýndir í línulegri dagskrá í Sjónvarpi Símans frá og með janúar.

Hreifst strax af Stellu

Heiða Rún býr og starfar í Bretlandi og fyrir vikið fer samtal okkar fram í síma. Hún segir leikstjórann, Óskar Þór Axelsson, hafa ráðið mestu um það að hún tók hlutverkið að sér. Hana hafi lengi langað að vinna með honum. Þá hafi það heillað að fá að leika titilhlutverk í sjónvarpsþáttum í fyrsta sinn.

Heiða Rún við tökur á þáttunum. Hún segir stemninguna hafa …
Heiða Rún við tökur á þáttunum. Hún segir stemninguna hafa verið góða og gaman sé að fá tækifæri til að leika á móðurmálinu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hafði ekki lesið bækurnar en gerði það eftir að ég tók hlutverkið að mér og hreifst strax af Stellu. Hún er í einu orði sagt frábær! Þetta er mjög safaríkt hlutverk,“ segir Heiða Rún en hún er engu nær um það frekar en aðrir landsmenn hver höfundur bókanna er. Það hlýtur að teljast vera eitt best varðveitta leyndarmál íslenskrar bókmenntasögu.

Fengin til að verja skítseiði

Um er að ræða þrjú aðskilin mál sem Stella glímir við í þáttunum sex. Fyrsta málið byggist á fyrstu bókinni um Stellu en hin tvö er ekki að finna í bókunum. Höfundar handrits eru Jóhann Ævar Grímsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Andri Óttarsson. Að sögn Heiðu Rúnar er þó undirliggjandi saga gegnum alla þættina.

Í kynningu SagaFilm og Sjónvarps Símans segir: „Lögfræðingurinn og einfarinn Stella Blómkvist er fengin til verja skítseiðið og eiturlyfjasalann Sæma sem er ásakaður um að hafa myrt unga konu á vegum forsætisráðuneytisins í sjálfu Stjórnarráðinu. Hann neitar staðfastlega sök, en bakvið tjöldin fara valdamiklir aðilar á stjá og reyna allt hvað þeir geta til að gera Stellu erfiðara fyrir að sinna starfi sínu.

Þannig hefst sería af ævintýrum þar sem Stella þvælist inn í atburðarás sem mun innvinkla helstu valdablokkir á Íslandi sem myndu ekki hika við að hreinsa einn snuðrandi lögfræðing út af borðinu. En Stella getur ekki látið kyrrt liggja, sérstaklega þegar hún ein getur komist að sannleikanum.“

Einmitt það. Stella er sumsé hreint ekki í orlofi að þessu sinni!

Tökur fóru fram í vor, frá apríl og fram í júní, og var Heiða Rún á landinu allan tímann. „Þetta var mjög skemmtileg vinna enda eru allir svo nánir heima, þar sem bransinn er svo lítill. Það var gaman að upplifa hvað þetta er heimilislegt. Það var líka dásamlegt að fá tækifæri til að leika á móðurmálinu. Maður á bara eitt móðurmál og tengir alltaf betur við það en önnur tungumál enda þótt maður kunni og tali þau mjög vel.“

Ekki spillti fyrir að hún fékk kærkomið tækifæri til að hitta ættingja og vini enda hefur hún sjaldan tíma til að stoppa lengi í einu á Íslandi.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert