Þyrfti ákafa jarðskjálftahrinu til

Frá Öræfajökli í gær.
Frá Öræfajökli í gær. mbl.is/RAX

„Það eru ekki sjáanlegar neinar breytingar í dag miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Ég hef að vísu ekki fengið neinar fréttir af Kvíá í morgun. Hvort ennþá renni vatn niður í hana. Það er eitt af því sem við getum fylgst með að staðaldri,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is um stöðuna í Öræfajökli.

Mælingarmenn frá Veðurstofunni eru á leið austur til þess að taka stöðuna á Kvíá samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. „Ef vatn rennur ennþá í Kvíá er atburðarásin sú sama. Það er það sem við höfum handbærast til þess að fylgjast með stöðunni. En um leið og rennslið í ána hættir þá er komin breyting eða þá breytist eitthvað mikið.“

Þannig bendir áframhaldandi vatnsrennsli til þess að vaxandi hiti sé á svæðinu vegna bráðnunar en dragi úr rennslinu, svo ekki sé talað um ef það stöðvast, bendir það til þess að svæðið sé að kólna og þar með minnka líkur á eldgosi. Hins vegar sé líka sá möguleiki fyrir hendi að lokast hafi fyrir vatnsrennslið og það fari að safnast fyrir.

„Hvað þetta varðar er þetta í raun ekkert flókið. Annað hvort er að leka vatn eða ekki og hverju mikið er að leka af því. Og hvort það er lykt af því. Það eru svona hlutir sem hægt er að fylgjast með stöðugt og svo er hægt að flytjast með jarðskjálftum. Síðan er verið að vinna að efnagreiningu á sýnum,“ segir Magnús Tumi ennfremur.

Sterkasta vísbendingin um að eldgos gæti hugsanlega verið framundan væri hins vegar vaxandi skjálftavirkni á svæðinu. Sú hefur hins vegar ekki verið raunin enn sem komið er. „Það væri áköf jarðskjálftahrina. Það eru allar líkur á því að slíkt þyrfti að brjótast upp á yfirborðið og því fylgdu skjálftar og órói.,“ segir hann aðspurður. 

Ekkert slíkt sé hins vegar að gerast. „Það er hins vegar staðreynd að það hefur orðið hitnun þarna og komið upp jarðhiti í öskjunni. Það er það sem við erum að horfa á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina