Keyrði á stelpu og lét sig hverfa

Keyrt var á Amelíu við Verkmenntaskólann á Akureyri.
Keyrt var á Amelíu við Verkmenntaskólann á Akureyri. Ljósmynd/VMA

„Frekar mikið sjokkerandi að fá símtal frá barninu sínu að það hafi verið keyrt á það á meðan það gekk yfir gangbraut, sérstaklega þegar mamma og pabbi eru langt í burtu.“ Þannig hefjast skrif Ingibjargar Elínar Halldórsdóttur á Facebook en í gær var keyrt á dóttur hennar þar sem hún var að ganga yfir gangbraut.

Lögreglan á Norðurlandi eystra deildi færslu á Facebook í gær þar sem ökumaðurinn var beðinn um að gefa sig fram. Ökumaðurinn bað dóttur Ingibjargar, Amelíu Rún, afsökunar, settist upp í bíl og ók í burtu. Óhappið átti sér stað á gangbraut á Mýrarvegi við Verkmenntaskólann á Akureyri.

„Amelía missti gleraugun og sjónina fyrst um sinn og sá því ekki ökumanninn né bílinn og veit því ekki um hvern ræðir,“ skrifar Ingibjörg enn fremur. 

Amelía marðist í andliti þegar ekið var á hana í …
Amelía marðist í andliti þegar ekið var á hana í gær. Ljósmynd/Aðsend

Amelía slapp vel en hún marðist talsvert í andliti. Ingibjörg segir að hún og fjölskyldan séu ekki reið en þau telji best fyrir andlega líðan ökumannsins að láta vita af sér til lögreglu:

„Ekki fyrir skammir heldur hreinlega til að fá að vita að það lítur út fyrir að manneskjan sem hann keyrði á hafi sloppið nokkuð vel og einnig til að ökumaður þurfi ekki að bera þetta einn með þeirri vanlíðan sem ég ætla að gefa mér að því fylgi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert