Skildu sjö flutningabíla eftir

Vonskuveður er á Holtavörðuheiði og færðin slæm.
Vonskuveður er á Holtavörðuheiði og færðin slæm. mbl.is/Gúna

Aðgerðum björgunarsveita vegna ófærðar á Holtavörðuheiði er lokið. Fimm bílar voru sendir frá björgunarsveitunum Oki, Brák og frá Akranesi með um tíu björgunarsveitarmönnum.

Einnig fóru tveir bílar frá Björgunarsveitinni Húnum á Hvammstanga upp á heiðina. 

Að sögn Júlíusar Más Þórarinssonar hjá Oki var blint og skafrenningur á heiðinni. Skaflar við hlið og girðingar náðu um eins metra dýpt.

Ófært var fyrir alla bíla nema sérútbúna.

Sjö flutningabílar voru skildir eftir uppi á heiðinni og verður beðið eftir því að hún verði rudd svo að þeir komist áfram. „Það væsir ekkert um þá. Þeir eru í kojubílum og með gott atlæti,” segir Júlíus Már um bílstjórana en öllum var boðið að fara til byggða.

Nokkrir fólksbílar voru losaðir en að minnsta kosti einn þeirra var skilinn eftir. Hann þarf að sækja með dráttarbíl.

Björgunarsveitirnar eru núna staddar á í Norðurárdalnum.

Björgunarsveitarmenn frá Hvammstanga eru einnig á leið til baka og eru þeir komnir í Hrútafjörðinn.

Snjóar mikið Vestanlands og vestan til á Norðurlandi

Í ábendingum frá veðurfræðingi á vefsíðu Vegagerðarinnar kemur fram að á Vestfjörðum muni snjóa fram undir hádegi. Vestanlands og vestan til á Norðurlandi lægir mikið um tíma. Hvessir aftur um miðjan daginn með norðaustanátt og skafrenningi og að mestu án snjókomu.

Frá Eyjafirði og austur úr verður viðvarandi éljagangur, blástur og blinda í dag. Í Öræfum versnar veðrið snögglega á milli klukkan 12 og 13 og hríðarbylur verður til að byrja með. Snarpir sviptivindar allt að 40 til 45 metrar á sekúndu í hviðum, einkum á kaflanum frá Skaftafelli austur fyrir Svínafell. Ekki lægir að gagni fyrr en í nótt.

Snjóþekja og víða ófært

Hálka er á höfuðborgarsvæðinu og hálka og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og Lyngdalsheiði og þæfingsfærð á Mosfellsheiði. Hálka er mjög víða á Suðurlandi, að því er Vegagerðin greinir frá.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og ófært á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Fróðárheiði. Mjög hvasst er á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Snjóþekja eða hálka er á sunnanverðum Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum. Ófært er á Klettshálsi og Hjallahálsi. Einnig er ófært á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum og slæmt veður. Þungfært er í Ísafjarðardjúpi á Drangsnesvegi og á Innstrandavegi. 

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja eða hálka á vegum og lokað yfir Þverárfjall. Þæfingsfærð er í Skagafirði og á Siglufjarðarvegi að Ketilási. Verið er að kanna ástand á Siglufjarðarvegi og Ólafsfjarðarvegi með tilliti til  snjóflóðahættu. Norðaustanlands er hálka eða snjóþekja og töluverð snjókoma á Melrakkasléttu og Langanesi. Þungfært er í Hófaskarði.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi og hálka eða hálkublettir með suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert