Í gæsluvarðhaldi til 6. desember

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað manninn og konuna sem voru handtekin í gær vegna rannsóknar á umfangsmikilli vændisstarfssemi í gæsluvarðhald til sjötta desember.

Að sögn Snorra Birgissonar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tekur núna við hefðbundin rannsóknarvinna, eða áframhaldandi öflun gagna og rannsóknarvinna.

Hann býst ekki við því að fólkið verði yfirheyrt aftur í dag en það var síðast yfirheyrt í gærkvöldi.

Það var handtekið eftir húsleit lögreglu á þremur stöðum í Reykjavík. Á tveimur þeirra voru þrjár konur á þrítugsaldri. Verið er að rannsaka hvort þær séu þolendur mansals. 

Þarf að leita mörg ár aftur í tímann

Maðurinn og konan eru grunuð um að hafa milligöngu um vændi og að hafa viðurværi af vændi annarra. Snorri segir slík mál ekki algeng hér á landi. Í rauninni þurfi að leita sjö til átta ár aftur í tímann til að finna sams konar mál.

Árið 2010 var Catalina Mikue Ncogo dæmd af Héraðsdómi Reykjaness í 15 mánaða fangelsi fyrir milligöngu um vændi, líkamsárás og  brot gegn valdstjórninni en var sýknuð af ákæru fyrir mansal. 

Hún var einnig dæmd í 2½ árs fang­elsi í Héraðsdómi Reykja­ness í byrj­un des­em­ber 2009 fyr­ir hag­nýt­ingu vænd­is og fíkni­efna­brot en Hæstirétt­ur þyngdi þann dóm í 3½ ár. Dóm­ur­inn í júlí árið 2010 var hegn­ing­ar­auki við þann dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert