Jón Trausti: „Vildi ekki valda neinum skaða“

Aðalmeðferð í máli Sveins Gests Tryggvasonar sem er ákærður fyrir …
Aðalmeðferð í máli Sveins Gests Tryggvasonar sem er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás vegna andláts Arnars Jónssonar Aspar.

Jón Trausti Lúthersson sagði í skýrslutöku fyrir héraðsdómi í dag að hann hefði ekki veitt Arnari Jónssyni Aspar neina áverka. Fyrr í dag hafði Sveinn Gestur Tryggvason, sem ákærður er fyrir stórfellda líkamsárás í tengslum við andlát Arnars í júní, sagt að Arnar og Jón Trausti hefðu tekist mikið á og að Jón Trausti hefði lamið Arnar með neyðarhamri.

Lögreglumaður sem annaðist rannsókn meðal annars á hamrinum sagði við skýrslutöku að ekkert benti til þess að hamrinum hefði verið beitt í átökum eða að blóð væri á honum. Styður það frásögn Jóns Trausta.

Sveinn Gestur er einn ákærður í málinu, en Jón Trausti og fleiri sem komu á heimili Arnars þennan örlagaríka dag sátu í varðhaldi eftir handtöku.Var þeim síðar sleppt án ákæru.

Tvennum sögum hefur farið hjá vitnum hvort Jón Trausti eða Sveinn hafi veitt áverka sem voru á Arnari. Jón Trausti lýsti því að þegar Arnar hafi komið hlaupandi með járnstöngina niður heimreiðina við Æsustaði á eftir aðkomufólkinu þá hafi hann ákveðið að mæta honum frekar en að fara undan. „Ég er ekki að fara að hlaupa út á tún út af einum manni,“ sagði Jón Trausti.

Staðfesti hann að hafa hlaupið á móti Arnari með neyðarhamar, en þegar hann hafi séð að Arnar var með járnstöngina hafi hann frekar vilja reyna að afvopna hann en að ráðast á hann. Það hafi tekist og þegar Arnar hafi reynt að komast undan hafi hann fallið í mölinni. Við það hafi Jón Trausti notað svokallað „dyravarðatak“ með því að ná hönd Arnars fyrir aftan bak og læsa hendinni. Með því hafi hann getað haldið honum niðri án þess að valda neinum skaða. „Ég vildi ekki valda neinum skaða," sagði hann.

Svo hafi Sveinn tekið við takinu af honum og Jón Trausti farið aftur niður að bílunum að sækja vatn  og símann sinn. Þegar hann kom aftur að Arnari tók hann mynd af Arnari í blóði sínu og sendi myndin á snapchat. Spurður út í þetta segir hann að þetta hafi verið heimskulega gert hjá sér og að hann geti ekki útskýrt þessa hegðun. Hann hafi þó ekki vitað að Arnar væri hættur að anda á þessum tíma. „í ljósi þess að maðurinn var látinn var þetta viðbjóðslegt og ógeðslegt,“ sagði Jón Trausti þegar hann var spurður nánar út í málið.

Spurður út í ummæli Sveins fyrr í dag um að Jón Trausti hafi veitt Arnari áverka eða að hann hafi hvatt til ofbeldisins sagði hann slíkt fjarstæðukennt. „Það er fáránlegt á allan hátt að fólk vogi sér að segja að ég hafi verið að hvetja hann á nokkurn hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert