Neyðarrýmingaráætlun gefin út í dag

Öræfajökull um helgina.
Öræfajökull um helgina. mbl.is/RAX

Neyðarrýmingaráætlun verður að öllum líkindum gefin út í dag vegna Öræfajökulssvæðisins.

Að sögn Rögnvalds Ólafssonar, verkefnastjóra hjá Almannavörnum, er lögreglan á Suðurlandi á ferðinni á svæðinu að heimsækja sveitabæi í tengslum við áætlunina og eftir það er búist við að ætlunin verði gefin út.

Í áætluninni er greining á því hvaða hús á svæðinu teljast örugg gagnvart jökulhlaupum. „Þetta er hugsað þannig ef svo ólíklega vildi til ef það kæmu þær aðstæður, ef það yrði eldgos án nokkurs fyrirvara,” segir Rögnvaldur.

Fólk gæti þá farið í þau hús sem eru talin örugg gagnvart jökulhlaupum. „Sumstaðar þarf fólk að fara af svæðinu og sumstaðar þarf fólk að hnika sér til innan svæðis.”

Hann segir að plan A sér að rýma svæðið að fullu áður en eitthvað gerist. Mikilvægt sé samt að eiga líka til neyðarrýmingaráætlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina