Ríkið sýknað í landsdómsmáli

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í landsdómi 2012.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í landsdómi 2012. mbl.is/Golli

Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp þann dóm í dag að íslenska ríkið hefði ekki brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu þegar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var dæmdur í landsdómi í apríl 2012 fyrir að hafa í aðdraganda falls viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 brotið gegn 17. grein stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að skyldu til þess að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Geir fór með málið fyrir Mannréttindadómstólinn í kjölfar dómsins.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að í málinu hefði ekki verið brotið gegn réttindum Geirs samkvæmt grein 6 og 7 Mannréttindasáttmálans eins og hann hélt fram en þær kveða annars vegar á um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar og að hinn ákærði skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð og hins vegar að enginn skuli talinn sekur um athæfi sem ekki hafi verið talið glæpsamlegt samkvæmt landslögum eða alþjóðalögum á þeim tíma sem það var framið.

Telur að 6. grein sáttmálans hafi verið brotin

Dómarnir í málinu voru einróma varðandi 6. grein Mannréttindasáttmálans en einn dómaranna, Krzysztof Wojtyczek, skilaði sératkvæði varðandi 7. greinina. Fram kemur í séráliti hans að þrátt fyrir að sú siðferðislega skylda hafi hvílt á Geir að koma í veg fyrir eða að minnsta kosti lágmarka áhrif falls bankanna á efnahagslíf Íslands geti hann ekki séð að honum hafi borið lagaleg skylda til þess að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Wojtyczek tekur þar með undir sératkvæði fimm dómara við landsdóm og segir hann röksemdir þeirra það sannfærandi að erfitt sé að vera þeim ósammála. Hann segist ennfremur hafa haft efasemdir um að taka undir með öðrum dómurum í málinu fyrir Mannréttindadómstólnum varðandi 6. grein Mannréttindasáttmálans.

Til stóð að ákæra fjóra fyrrverandi ráðherra

Samþykkt var á Alþingi í lok september 2010 að höfða mál gegn Geir fyrir landsdómi fyrir „fyrir brot framin af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi í embættisfærslu hans sem forsætisráðherra“.  Einnig var lagt upp með að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra. Hins vegar var fellt í atkvæðagreiðslu á Alþingi að ákæra þau þrjú.

Mjög var deilt um atkvæðagreiðsluna og ekki síst þá staðreynd að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði ýmist með því að ákæra ákveðna einstaklinga eða ekki á meðan flestir þingmenn greiddu annaðhvort atkvæði með því að ákæra alla fjóra eða engan. Voru umræddir þingmenn Samfylkingarinnar sakaðir um að bjarga eigin samherjum og þótti atkvæðagreiðslan þannig til marks um að hún væri pólitísk og þar með komandi réttarhöld.

Sakfelldur fyrir einn af upphaflegum sex liðum

Málið var þingfest sumarið 2011. Í október var tveimur ákæruliðum af sex vísað frá. Í öðrum ákæruliðnum var Geir m.a. sakaður um að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði. Í hinum liðnum var honum gefið að sök að hafa ekki látið vinna greiningu á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.

Aðalmeðferð málsins hófst 5. mars 2012 í Þjóðmenningarhúsinu og lauk hinn 16. mars og komu tugir vitna fyrir réttinn. Hinn 23. mars var dómur kveðinn upp. Meirihluti landsdóms, níu dómarar af 15, sakfelldu Geir H. Haarde fyrir eitt ákæruatriði en sýknaði hann af þremur. Var honum ekki gerð refsing. Sex dómarar vildu sýkna hann af öllum ákæruliðunum.

mbl.is