Þingið álykti um landsdómsmálið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hyggst leggja fram þingsályktunartillögu á komandi þingi þess efnis að rangt hafi verið að ákæra Geir H. Haarde. Þetta upplýsir hann í pistli á heimasíðu sinni.

Sigmundur kveðst hafa skrifað þingsályktunartillöguna og fengið meðflutningsmenn að henni. Hann hafi fallist á beiðni þeirra um að bíða með tillöguna þar til niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu lægi fyrir.

„Nú liggur niðurstaða dómstólsins fyrir og ég mun því leggja tillöguna fram á nýju þingi,“ segir Sigmundur

Í skrifum sínum segir Sigmundur að niðurstaða Mannréttindadómstólsins í dag breyti í engu þeirri meginniðurstöðu að Geir hafi unnið landsdómsmálið og landsdómur staðfesti fáránleika þess að meirihluti Alþingis skyldi ákæra fyrrverandi ráðherra með það að markmiði að koma honum í fangelsi fyrir pólitísk störf.

„Óánægja mín með aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í efnahagsmálum og í samskiptum við erlend stjórnvöld var ástæða þess að ég hóf að skipta mér af stjórnmálum. Stefna og stefnuleysi stjórnarinnar var að mínu mati stórskaðlegt þ.a. þegar ég var orðinn formaður stjórnmálaflokks í stjórnarandstöðu leit ég á það sem fyrsta markmið mitt og flokksins að koma ríkisstjórninni frá völdum. Engu að síður þótti mér það í senn fráleitt og óhugnanlegt þegar ákveðið var að gera tilraun til að fá ráðherra þeirrar ríkisstjórnarinnar dæmda í fangelsi fyrir það með hvaða hætti þeir hefðu nálgast þau stóru viðfangsefni sem við var að eiga. Niðurstaðan varð pólitísk réttarhöld yfir einum ráðherranna,“ segir Sigmundur.

Hann rekur sögu landsdómsmálið og segir að Geir hafi verið sakfelldur fyrir léttvægustu og óljósustu sakargiftirnar.

„Niðurstaðan sýndi að málatilbúnaður þingnefndarinnar átti engan rétt á sér. Það er því fráleitt að halda því fram að með dómi mannréttindadómstólsins, þess efnis að mannréttindi Geirs hafi ekki verið brotin með niðurstöðunni um dagskrá ríkisstjórnarfunda, sé á einhvern hátt verið að samþykkja málsmeðferð Alþingis í landsdómsmálinu.“

mbl.is