Festu bát við bryggju á Hjalteyri

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Ljósmynd/Orri Örvarsson/Landsbjörg

Fjórir björgunarsveitarmenn frá Akureyri voru kallaðir að Hjalteyri í morgun vegna báts sem var að losna frá bryggjunni.

Verkefninu lauk rétt fyrir hádegi en þeir voru um eina klukkustund að binda bátinn við bryggjuna.

Einnig voru björgunarsveitarmenn kallaðir að íbúðarhúsi í Syðra-Lóni fyrir utan Þórshöfn vegna þaks sem var þar að losna af.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, hafa í kringum fimmtíu björgunarsveitarmenn verið í verkefnum það sem af er degi. Flest hafa þau verið í Eyjafirði.

Davíð segir hlutina hafa róast undir hádegið í dag en segir björgunarsveitarmenn vera í startholunum því Veðurstofa Íslands hefur spáð því að veðrið muni ná hámarki seinnipartinn í dag.

„Menn eru í viðbragðsstöðu og vita að hápunkturinn er framundan,” segir hann og brýnir fyrir fólki að huga að færð og veðri áður en það fer út úr húsi.

mbl.is