Innan við 100 metra skyggni

Snjóplógur á ferðinni á Akureyri í morgun.
Snjóplógur á ferðinni á Akureyri í morgun. mbl.is/Þorgeir

Á Austurlandi nær vindur hámarki um miðjan dag með 20 til 28 metrum á sekúndu og verður skyggni víðast minna en 100 metrar. Á láglendi er heldur minni skafrenningur.

Suðaustanlands, einkum frá Suðursveit og austur í Berufjörð gerir mjög snarpa bylji af fjöllum upp úr hádegi, með hviðum allt að 40 til 50 metrum á sekúndu og stendur það yfir til kvölds, að því er kemur fram á vef Vegagerðarinnar í upplýsingum frá veðurfræðingi.

Á Holtavörðuheiði, sem er lokuð fyrir umferð, er spáð svipuðum vindi í allan dag, 13 til 16 metrum á sekúndu. Skafrenningur verður og blint en það dregur úr éljum.

Á Vestfjörðum dregur úr éljum og lítillega úr vindi í dag.

Lítið lát er á hríðarveðrinu frá Skagafirði og austur úr.

Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði lokaðar

Auk Holtavörðuheiðar eru Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði lokaðar. Á Vestfjörðum er vegur lokaður um Klettsháls og um Súðavíkurhlíð.

Lokað er um Siglufjarðarveg, Ólafsfjarðarmúla, Öxnadalsheiði, Víkurskarð og Hófaskarð. Mývatns og Möðrudalsöræfi eru einnig lokuð, sem og Fagridalur og Fjarðarheiði.

Hálka víða á Suðurlandi

Nokkur hálka er víða á Suðurlandi en sums staðar hvasst. Vegur er lokaður vestan Laugarvatns, allt vestur á Mosfellsheiði.

Stórhríð er í sunnanverðum Hvalfirði og þæfingsfærð. Á Vesturlandi er víðast hálka eða snjóþekja og sums staðar hvassi. Brattabrekka er ófær og Holtavörðuheiði er enn lokuð.

Á Vestfjörðum er Klettsháls lokaður og eins Súðavíkurhlíð. Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði en þungfært í Djúpinu.

Hálka eða snjóþekja er á Norðurlandi vestra. Siglufjarðarvegur er lokaður.

Hríðarveður er á Norðurlandi estra, vegur víða þungfær eða ófær. Lokað er á Öxnadalsheiði, í Ólafsfjarðarmúla og á Víkurskarði. Eins er lokað á Hófaskarði og síðan er lokað yfir Fjöllin frá Mývatni og austur um.

Lokað er bæði á Fjarðarheiði og Fagradal vegna veðurs. Víðast er fært á Héraði en Vatnsskarð eystra er ófært.

Vegur er opinn með austur- og suðausturströndinni en víða er hvasst, ekki síst í Hamarsfirði.

Uppfært kl. 10:12 - Súðavíkurhlíð opnuð

Á Vestfjörðum er verið að moka Klettsháls. Búið er að opna Súðavíkurhlíð og mokstur er að hefjast í Djúpinu.

mbl.is