Lesblindir hafa orðið útundan

Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björk Vilhelmsdóttir hætti í stjórnmálum og fór til Palestínu að tína ólífur í sjálfboðavinnu. Hún leitaði aftur í ræturnar og kláraði meistaranám í félagsráðgjöf þar sem hún rannsakaði sérstaklega stöðu lesblindra, sem hún segir hafa orðið útundan en hátt hlutfall nýrra öryrkja er með lesblindu.

Björk er ekki aðeins upptekin af því að hjálpa palestínskum almenningi en í meistararitgerð sinni beinir hún sjónum sínum að ungu fólki og tækifærum þess, ekki síst ungu lesblindu fólki sem er utan skóla og vinnumarkaðar. „Þegar það er lítið atvinnuleysi eins og núna, þá eru samt fleiri en 600 einstaklingar á aldrinum 16-30 ára á atvinnuleysisskrá sem bara eru með grunnskólamenntun. Þetta er hópur sem mun ekki eiga neinn séns í samfélaginu nema við bjóðum honum upp á annaðhvort menntun eða vinnu. Ef hann festist á atvinnuleysisbótum á þessum aldri verða þetta bótaþegar um alla framtíð með tilheyrandi heilsubresti. Það er mikill heilsubrestur sem fylgir svona óvirkni. Þetta er þessi hópur sem ég var að skoða í minni meistararitgerð,“ segir Björk sem rannsakaði sérstaklega lesblindu.

„Ég tók viðtal við sjö lesblinda einstaklinga sem hafa orðið algjörlega úti í samfélaginu. Lesblinda er svo stór áhrifaþáttur varðandi vinnu og nám. Við erum ekki að mæta þessum hópi. Hann lendir á atvinnuleysisbótum ef hann á rétt á því, annars fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins og fer síðan á örorkubætur.“

Á örorku vegna geðsjúkdóma

Í nýrri rannsókn Félagsvísindastofnunar voru þeir sem nýlega höfðu fengið örorku vegna geðsjúkdóma og stoðkerfissjúkdóma spurðir út í aðstæður sínar. Í ljós koma að 33% þeirra sem voru undir þrítugu höfðu greinst með lesblindu en til samanburðar eru lesblindir aðeins 3-5% samfélagsins í heild.

„Þessi rannsókn segir okkur að þeir sem eru lesblindir og fá ekki þörfum sínum mætt í skólakerfinu fara bara inn í bótakerfið, festast þar og ávinna sér ýmsan heilsubrest. Auðvitað er þetta fólk með ýmsar raskanir en þessar raskanir eru viðráðanlegar ef fólk er í virkni og tekur þátt í samfélaginu. Lesblindan versnar ef þú lest aldrei neitt og ert bara heima, ADHD versnar ef þú ert ekki að takast á við neitt sérstakt, félagsfælni versnar ef þú einangrar þig og þunglyndi bætist ofan á og eykst með kvíða. Fólk er svo komið á örorku vegna geðsjúkdóma.“

Hún bendir á að 80% ungs fólks sem fer á örorku fær hana vegna geðsjúkdóma. „Við erum búin að jaðarsetja þennan hóp. Þetta er dýrt fyrir samfélagið og ömurlegt fyrir þessa einstaklinga að komast í þessa stöðu því þetta er allt ungt fólk sem á að geta blómstrað í allskonar störfum. Þetta er fólk sem er ekkert að í sjálfu sér. Þetta er fólk sem er komið á örorku vegna geðsjúkdóma því kvíðinn, þunglyndið og félagsfælnin verða óviðráðanleg þegar þú ert búin/n að vera ein/n heima og gera ekki neitt nema að vera í tölvunni í fimm ár. Þetta eru allt alvarlegir geðsjúkdómar en þeir eru allir viðráðanlegir svo framarlega sem þú einangrar þig ekki heima. Það er enginn sem ýtir við þeim og segir stopp – núna hættir þú á bótum og byrjar að vinna – og býður þeim upp á tækifæri.“

Skólaskylda til 18 ára aldurs

Björk brennur fyrir því að bæta stöðu þessa fólks og vill gera það í gegnum félagsráðgjöfina. „Það sem mig langar að gera er að vinna með ungu fólki og hjálpa fólki að fá tækifæri í lífinu. Ég hef svo mikla trú á því að samfélagið geti boðið fólki tækifæri.“
Hún segir hátt brottfall úr námi hérlendis vera mikið áhyggjuefni. „Sumir hætta vegna námsleiða,“ segir hún og vill ekki að samfélagið leyfi því að gerast. „Af hverju höfum við ekki skólaskyldu til 18 ára aldurs? Það myndi hjálpa,“ segir hún og útskýrir að þeir sem endi á fjárhagsaðstoð séu í mikilli hættu á að festast á henni.

Björk Vilhelmsdóttir er í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins þar sem hún segir nánar frá þessu og ræðir nýlega ferð sína til Palestínu þar sem hún vann við ólífutínslu í sjálfboðavinnu.

Björk við ólífutínslu í Palestínu.
Björk við ólífutínslu í Palestínu.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »