„Við erum ekki hér í sagnfræði“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við lögðum til að það yrði skoðað að þingið tæki til starfa og svo yrði þingfundum frestað og nefndir gætu þá byrjað að spjalla um mál sem er brýnt að ræða um. Ég held þau séu að hugsa það,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, eftir fund formanna allra flokka á Alþingi nú síðdegis. 

Segir hann fyrirhugaða ríkisstjórn hafa lagt fram á fundinum að fjárlagafrumvarp Benedikts Jóhannessonar, fráfarandi fjármálaráðherra, yrði lagt fram að nýju en það hafi verðandi stjórnarandstöðuflokkum ekki hugnast. 

„Þau komu fram með þá hugmynd en það lagðist ekki vel í okkur. Við erum ekki hér í sagnfræði heldur erum við að fara að velta fyrir okkur hvað gerist í framtíðinni,“ segir Logi. Niðurstaðan hafi því verið sú að fyrirhuguð ríkisstjórn leggi fram ný fjárlög og þau verði tekin til efnislegrar meðferðar.

Eðlilegast að nýtt frumvarp verði lagt fram

„Það er langeðlilegast að ný ríkisstjórn leggi fram sitt fjárlagafrumvarp og auðvitað skiljum við að þau þurfi sitt svigrúm því það er ýmislegt sem breytist og þarf að keyra það í gegnum formúlur og prenta og klippa og dreifa,“ segir Logi.

Spurður að því hvort eitthvað fleira hafi verið rætt á fundinum segir hann aðeins hafa verið drepið á því hver aðkoma stjórnarandstöðunnar yrði í nefndarstörfum, en það bíði næstu daga að útkljá það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert