Á batavegi eftir fall í hver

Mynd sem var tekin morguninn áður en hið skelfilega slys …
Mynd sem var tekin morguninn áður en hið skelfilega slys átti sér stað. William Crawford er fyrir miðju með dætrum sínum Bryce og Shannon sér við hlið. Þær höfðu gefið föður sínum ferðina til Íslands í sjötugsafmælisgjöf. Mynd/ úr einkasafni

William Crawford frá Bandaríkjunum fékk frí til Íslands í óvænta sjötugsafmælisgjöf frá dætrum sínum. Það var í þessu fríi, í september á síðasta ári, sem hann féll af slysni ofan í sjóðandi heitan hver við Gömlu laugina á Flúðum. Hann brenndist mjög alvarlega og þurfti að gangast undir þrettán húðgræðsluaðgerðir.   

Crawford segist vera óendanlega þakklátur öllum þeim sem komu að slysinu og þakkar starfsfólki Landspítalans innilega fyrir aðstoð og hjúkrun. Crawford, kallaður Chip, brenndist mjög alvarlega og þurfti að gangast undir þrettán húðgræðsluaðgerðir. 

Enn er langt í land að bata og hann getur til dæmis ekki setið nema í um 15 mínútur á hverjum degi vegna kvala.  Hann hafði samband við enska vef mbl.is, Iceland Monitor og vildi koma þakkarbréfi áleiðis til allra þeirra Íslendinga sem aðstoðuðu hann og fjölskyldu hans í kjölfar slyssins. 

Sá ekki viðvörunarskilti

„Ég fer venjulega alltaf eftir öllum reglum og fyrirmælum,“ segir Crawford í samtali við Iceland Monitor um slysið sem átti sér stað í byrjun september á síðasta ári. „Dætur mínar og ég höfðum verið að borða kvöldmat á gistiheimili rétt handan brúarinnar og fórum svo að heimsækja Gömlu laugina.  Við komum um 45 mínútum áður en henni var lokað og það var orðið dimmt. Ég sá engin viðvörunarskilti.“

Crawford segir að hann hafi ákveðið að bregða sér ofan í  kaldan lækinn sem var rétt hjá Gömlu lauginni. „Ég stytti mér leið yfir það sem ég hélt að væri grasi vaxið engi en ofan í grasinu leyndust margir hverir fullir af sjóðandi vatni. Ég var næstum kominn yfir að ánni þegar vinstri fótleggurinná mér sökk ofan í mjúkan blett. Ég stökk til að koma fótleggnum upp en við það fóru báðir fótleggirnir á mér og allur vinstri hluti líkamans ofan í brennandi heitt vatnið. Ég vissi um leið að ég yrði ristaður- (toast) í orðsins bókstaflegu merkingu. Ég öskraði og Shannon dóttir mín sem var um 20 fet í burtu togaði mig, með hjálp annarrar manneskju, upp úr þessum pytti. Dóttir mín bjargaði lífi mínu. Eftir aðra mínútu þarna ofan í  hefði ekki verið mikið eftir af mér til að bjarga.“

Fluttur með sjúkraflugi til Bandaríkjanna

Það tók um 20 mínútur fyrir björgunarsveitir að mæta á staðinn og meta meiðsli hans og gefa honum morfín við sársaukanum. Hann segist hafa dottið alveg út þegar keyrt var með hann í sjúkrabíl á Selfoss og þaðan yfir á Landspítalann í Fossvogi. Tveimur dögum síðar var flogið með hann til Bandaríkjanna þar sem hann lagðist inn á West Penn-sjúkrahúsið í Pittsburgh nærri heimili hans. 

„Starfsfólk spítalanna ykkar gæti ekki hafa reynst mér og dætrum mínum betur,“ skrifar Crawford í þakkarbréfi sínu. „Þau voru öll stórkostleg og einstaklega fær og sýndu það sem ég hafði áður tekið eftir í fari Íslendinga, einstaka hlýju og vingjarnlegheit.“ Eins vill hann koma sérstökum þökkum til starfsfólks Kanadíska sendiráðsins hér á landi en þar sem dóttir hans hefur kanadískan ríkisborgararétt hafði lögregla samband þangað. 

Vill koma aftur til Íslands

Crawford var flogið í öndunarvél til Bandaríkjanna með næringu í æð og gekkst þar undir þrettán húðgræðingaraðgerðir.  Nú er ár liðið og hann getur nú hreyft sig og fer í endurhæfingu daglega. Það sem háir honum mest er taugaskaði sem veldur því að hann getur ekki setið lengur en í korter á degi hverjum sársaukalaust. 

Crawford endar bréfið á að þakka líka starfsfólki Gömlu laugarinnar sem hlúði bæði að honum og dætrum hans, björgunarmönnum, þyrluflugmanni og öðrum sem aðstoðuðu hann. „Ég bind vonir við að koma aftur til Íslands til að geta þakkað ykkur öllum persónulega fyrir.“

Lesið allt bréfið á ensku á Iceland Monitor HÉR. 

William Crawford ásamt fjölskyldu sinni.
William Crawford ásamt fjölskyldu sinni. Mynd / úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert