Brýnt að bæta símasambandið

Öræfajökull úr lofti. Sigketillinn sést greinilega.
Öræfajökull úr lofti. Sigketillinn sést greinilega. mbl.is/RAX

Á milli fimmtíu og sextíu manns í ferðaþjónustu í Öræfasveit og nágrenni komu saman á fundi í Freysnesi í morgun. Dagskrá fundarins var með svipuðu sniði og á almennum íbúafundi sem haldinn var í gær, vísindamenn fóru yfir stöðuna í Öræfajökli og lögreglan á Suðurlandi kynnti vinnu vegna neyðarrým­ingaráætl­un­ar sem gef­in var út fyr­ir helgi.

„Þetta var sama yfirferð og við vorum með í gær. Svipaðar umræður, það var farið yfir framhaldið og komið á samvinnu og samstarfi með þessum aðilum,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri hjá Almannavörnum.

Hann sagði ferðaþjónustufólk á svæðinu hafa lýst nokkrum áhyggjum af fjölmiðlaumfjöllun um aukna jarðhitavirkni í Öræfajökli.

„Allar fréttir og öll umfjöllun um þetta hefur oft bein áhrif á starfsemina hjá þeim. Það er ekkert verið að hugsa endilega um íslensku fjölmiðlana því að okkar reynsla af þeim er yfirleitt mjög góð og fremur vandaður fréttaflutningur af þessu. Menn hafa nýtt sér það að það er greiður aðgangur að vísindamönnum og þeim sem eru hjá Almannavörnum til að fá réttar og sem bestar upplýsingar. Umfjöllun erlendra fjölmiðla er ekki alltaf jafn vönduð. Þeir eru ekki að eltast við smáatriði, þar sem þeirra lesendur vita ekki hvernig landið liggur hérna og þess háttar. Þetta er bara svipað og við höfum upplifað í öðrum atburðum hjá okkur,“ segir Rögnvaldur.

Ferðafólk á göngu í Öræfum.
Ferðafólk á göngu í Öræfum. mbl.is/RAX

Ferðaþjónustufólk hefur einnig lýst yfir áhyggjum af símasambandinu í nágrenni jökulsins, en ljóst er að það þarf að vera í góðu lagi ef til þess kemur að rýma þurfi svæðið. Þá verða send smáskilaboð í alla símana á svæðinu og mikilvægt er að þau rati rétta leið.

„Það er ekki alls staðar gott farsímasamband á svæðinu og það er vinna sem við erum búin að setja í gang með Póst- og fjarskiptastofnun. Ferðaþjónustufólk og íbúar fengu spurningalista með allskonar spurningum um svæðið, þar á meðal varðandi fjarskipti og fleira í þeim dúr, sem hjálpar okkur að stýra okkar fókus.“

Skilst að Vodafone séu lagðir af stað

Olga M. Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaþjónustuklasans Ríki Vatnajökuls sótti fundinn og segir að öryggi bæði íbúa og ferðamanna á svæðinu skipti mestu máli. Í því samhengi sé símasambandið mikilvægt.

„Það er verið að tala um að laga símabandið strax, svo að allir geti fengið sms ef eitthvað gerist. Mér skilst að Vodafone séu bara lagðir af stað hingað og að það eigi að vera komið betra samband á morgun á allavega einhverjum svæðum,“ segir Olga í samtali við mbl.is.

GSM-samband innan samanlagðra dreifikerfa Símans, Nova og Vodafone í Öræfum …
GSM-samband innan samanlagðra dreifikerfa Símans, Nova og Vodafone í Öræfum og nágrenni, eins og staðan var í apríl/maí á þessu ári. Fjólublár litur merkir símasamband. Ljósmynd/Skjáskot af vef Póst- og fjarskiptastofnunar

Hún staðfestir að umfjöllun fjölmiðla hafi komið aðeins til tals á fundinum. „Það var aðeins minnst á það að vera ekki með neinn æsifréttastíl á þessu. Það eru allir rólegir hér og öllum líður vel, en fólk vill náttúrlega vera upplýst.“

Fréttir í síðustu viku fældu einhverja frá svæðinu. „Það var aðeins um daginn, eftir frétt hjá Vísi, þá voru einhverjar afbókanir og einhverjar fyrirspurnir. Það er mikilvægt að koma upplýsingum á ensku til ferðamanna líka og mikilvægt að fjölmiðlar geri svolítið í því að upplýsa þá líka,“ segir Olga.

mbl.is