Uppfylla ekki skilyrði um hundahald

Hundar eru algeng gæludýr.
Hundar eru algeng gæludýr. mbl.is/Eggert

Stjórnendur þriggja veitingastaða hafa tilkynnt Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að þeir hyggist heimila hunda á veitingastað sínum.

Eftir að hafa fengið leiðbeiningar um málið og verið spurðir hvort öll skilyrði væru uppfyllt ákvað einn af stöðunum að hætta við að heimila þar hunda vegna þess að ekki væri hægt að uppfylla öll skilyrði breyttrar reglugerðar um hollustuhætti.

Annar af stöðunum ætlar að skoða betur hvort hægt sé að uppfylla skilyrðin.

Þriðji staðurinn, sem og aðrir veitingastaðir sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur verið í sambandi við vegna þessa, hefur fengið upplýsingar um að líklega uppfylli þeir ekki skilyrði reglugerðarinnar.

Þetta kemur fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn mbl.is.

Þurfa að breyta veitingastöðunum

Líklegt er að mjög fáir veitingastaðir geti uppfyllt öll þessi skilyrði án þess þeim verði breytt, samkvæmt því sem kemur fram í svarinu. Til þess að hægt sé að uppfylla skilyrði um að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaðar og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhönduð eða geymd þarf að vera til staðar sér herbergi, með inngangi að utan, með engum matvælum. 

mbl.is/Þórður

Í svarinu kemur einnig fram að stjórnendur veitingastaða beri ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur í löggjöf sem varða starfsemi staðanna, svo sem lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um matvæli og reglugerðir og samþykktir sem hafa verið settar samkvæmt þeim.

Ekki hefur verið kvartað til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna hunda eða katta á veitingastöðum eftir að breytingar voru gerðar á reglugerðinni. Ein kvörtun hefur aftur á móti borist þar sem kvartað var yfir reglugerðarbreytingunni.

Fram kemur í svarinu að stjórnendur veitingastaða þurfi ekki að sækja um leyfi hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga ef þeir vilja heimila að komið sé með hunda og ketti þangað inn. Engu að síður þurfa þeir að tilkynna það til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Geri þeir það ábyrgjast þeir að staðurinn uppfylli skilyrði í reglugerð um hollustuhætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert