Segir ástandið verra en hann hélt

Óttarr Proppé ásamt ungum dreng í flóttamannabúðunum.
Óttarr Proppé ásamt ungum dreng í flóttamannabúðunum. Ljósmynd/Erna Kristín Blöndal

Ástand þeirra rohingja sem nú dvelja í flóttamannabúðum í Bangladess er verra en Óttar Proppé, starfandi heilbrigðisráðherra, kveðst hafa áttað sig á áður en hann kom þangað. Óttar er nú staddur í Bangladess með UNICEF til að kynna sér aðstæður rohingja þar í landi.

„Ástand fólksins er verra en ég hafði áttað mig á,“ segir Óttar. „Það er viðvarandi vannæring, sem í sumum tilfellum virðist ekki vera ný af nálinni. Rohingjar virðast hafa verið mjög afskiptir lengi í Mijanmar (Búrma) og börn eru að koma yfir til Bangladess án þess að hafa notið neinnar heilbrigðisþjónustu og eru með öllu óbólusett.“ Þá sé áberandi skortur á menntun, læsi og öðru sem flestir teldu til grundvallar mannréttinda.

Óttarr heimsótti í gær flóttamannabúðir í nágrenni borgarinnar Cox‘s Bazar, sem er við landamæri Bangladess og Búrma. „Það var mjög sterk upplifun að koma í þessar búðir í gær,“ segir hann. Þar heimsóttu þau heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar þar sem m.a. var verið að taka á móti börnum og mæðrum, en búðirnar eru tiltölulega nýjar. „Þar voru stórir hópar mæðra sem margar hverjar virtust vera ansi ungar,“ segir Óttarr. „Síðan voru skarar af börnum sem mörg hver voru mjög veik.“

Erna Kristín Blöndal frá UNICEF í flóttamannabúðunum.
Erna Kristín Blöndal frá UNICEF í flóttamannabúðunum. Ljósmynd/Erna Kristín Blöndal

Áberandi skortur á karlmönnum

„Það sló mig sterkt hvað það var mikil ró yfir fólki,“ segir Óttarr og kveður fólkið hafa virst sjá ákveðið ljós í myrkrinu við að vera þó með fjölskyldu sinni eða fólki sömu trúar. „Svo upplifir fólk það líka að vera komið í öruggt svæði, jafnvel þó að aðstæður séu ömurlegar.“

Í dag heimsóttu þau síðan stærstu flóttamannabúðirnar í Bangladess, en elsti hluti þeirra er í grunninn frá árinu 1992. „Þær búðir hafa stækkað alveg gríðarlega undanfarna mánuði, eða allt frá því að herinn í Mijanmar hóf árásir sínar á rohingja í lok ágúst.“ Talið er að um 400.000 manns séu í búðum.

„Þetta er alveg rosalegur fjöldi,“ segir Óttarr. „Það er talið að um 1,2 milljónir séu komnar yfir til Búrma. Af þeim eru 720.000 börn.“ 55-60% allra flóttamannanna eru börn og sýnilegur skortur á karlmönnum. „Það er mjög áberandi að þetta eru börn, konur og aldrað fólk. Maður tekur eftir því að það vantar í hópana karlmenn á aldrinum frá 18 ára og upp úr, sem bendir til þess að það hafi verið skipulagðari og alvarlegri mannréttindabrot en við höfum kannski í öllum tilfellum fengið fréttir af.“

Erna Kristín Blöndal frá UNICEF í flóttamannabúðunum.
Erna Kristín Blöndal frá UNICEF í flóttamannabúðunum. Ljósmynd/Erna Kristín Blöndal

Krafturinn fer allur í neyðaraðstoðina

Óttarr segir umfang vandans hafa slegið sig við komuna og að verkefnið sé ærið. „Jafnvel þó að alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar og aðrir sem vettlingi geta valdið séu í samvinnu við yfirvöld í Bangladess að reyna að aðstoða þá er ljóst að allur krafturinn fer bara í neyðaraðstoð — hann fer í að bjarga lífi, að koma matvælum, vatni  og hjálpargögnum til fólks, sem og að veita því  lágmarks heilbrigðisþjónustu.“

Ástand fólksins sé líka verra en hann hafði áður talið, en m.a. er verið að veita börnum næringu og fylgjast með þeim. Þannig hafi t.d. verið sett upp sérstök örugg svæði fyrir börn þar sem verið sé að vinna með þeim sem sýna merki áfallastreituröskunar. Vel gangi að vinna með sum þeirra, en önnur sýni engin viðbrögð.

Meðal annarra viðkomustaða í þessari UNICEF heimsókn eru skólastofur sem verið er að setja upp í því skyni að reyna að viðhalda menntun og tungumáli barnanna. Þó að ferðin sé farin í samvinnu við UNICEF á Íslandi og eftir þeirra skipulagi er Óttarr á eigin vegum og samtökin bera því ekki kostnað af veru hans.

Ljósmynd/Erna Kristín Blöndal

Fólki smalað saman og myrt

Óttarr segir þá flóttamenn sem þau hittu hafa lýst því hvernig ráðist var á þorp þeirra og þau brennd. „Í mörgum tilfellum var fólki smalað sama og myrt,“ segir hann. „Síðan hefur fólkið gengið í gegnum ýmislegt á ferðalagi sínu til Bangladess og í mörgum tilvikum hafði það jafnvel takmarkaðan aðgang að mati og vatni áður en það komst yfir landamærin.“

Sjálfum hafi sér fundist allt að óþægileg ró yfir fólkinu, „Maður upplifir að fólk sé búið að sætta sig við ástandið,“ segir hann en kveður engu að síður líka mikils óöryggis gæta hjá fólki gagnvart framtíðinni.

Margir hafi enda heyrt af því samkomulagi sem stjórnvöld í Bangladess og Mijanmar hafi gert með sér um endurflutning rohingja til Mijanmar.

Óttarr fundaði með Shahriar Alam, aðstoðarutanríkisráðherra Bangladess, við komuna til landsins á mánudag og segir hafa komið skýrt fram hjá Alam að þarlend stjórnvöld leggi áherslu á þátttöku alþjóðasamfélagsins í málinu svo tryggja megi öryggi rohingja við endurkomuna til Mijanmar.

Ljósmynd/Erna Kristín Blöndal

Ekki bara skipulagður endurflutningur út í óvissuna

„Fólk veit af þessu samkomulagi og vill treysta því að þetta verði ekki bara skipulagður endurflutningur út í óvissuna,“ segir hann. „Yfirvöld í Bangladess segjast heldur ekki stefna þangað öðruvísi.“ Sá mikli fjöldi flóttamanna sem streymt hafi til Bangladess undanfarna mánuði reynist þarlendum stjórnvöldum líka þungur baggi. „Þetta er fjölmennt ríki og mikil fátækt, en Bangladess-búar í héraðinu þar sem að mestur fjöldi flóttamanna er hafa lagt mikið á sig til að taka á móti þessum fjölda. Þess vegna er líka mikilvægt að þeir skynji stuðning alþjóðasamfélagsins.“

Ljósmynd/Erna Kristín Blöndal

Hjálparstarfsmenn hafa einnig áhyggjur af samkomulaginu, enda telji þeir vandann ekki líklegan til að leysast á næstunni. Samkomulagið kunni hins vegar að hafa í för með sér að erfiðara verði að fjármagna starfið í flóttamannabúðunum og það hafi verið undirfjármagnað fyrir. „Það varð að draga úr aðstoð nýlega, þar sem alþjóðastofnanir gátu ekki fjármagnað hjálpina að fullu,“ segir Óttar. „Eins og er ná samtökin bara að sinna grunnaðstoð við fólk sem að býr í tjaldbúðum. Hvað gerist svo ef að  ekki tekst að viðhalda þeirri þjónustu eða bæta heilbrigðisþjónustuna?“

Faraldrar hafi þegar komið upp í búðunum. „Núna eru til dæmis merki um að mislingafaraldur sé að fara af stað og þá er mikil vinna lögð í að bólusetja, en það er erfitt af því að fólk er enn að koma yfir.“

Þess má geta að neyðarsöfnun UNICEF er í fullum gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert