Tengsl milli launamunar og áreitni

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir meiri umræðu um kynferðislega áreitni …
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir meiri umræðu um kynferðislega áreitni og ofbeldi nú eiga sér stað hjá stéttarfélögum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Aukin umræða um kynferðislega áreitni og ofbeldi hefur átt sér stað hjá stéttarfélögum í kjölfar þeirrar vakningar sem átt hefur sér stað um þessi mál undanfarnar vikur. Þetta segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, sem hélt fyrirlestur um kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnumarkað í Jafnréttisstofu í hádeginu í dag.

„Það er meiri meiri umræða í stéttarfélögunum og fólk hringir og léttir á sér og veltir vöngum og svo framvegis, þannig að þetta hefur áhrif,“ segir Drífa og kveðst telja að Facebook-hópar sambærilegir þeim sem stofnaðir hafa verið hjá konum í stjórnmálum, sviðslistum og vísindum séu víðar í gangi.

Í fyrirlestri sínum veltir Drífa því fyrir sér hvaða áhrif kynbundin og kynferðisleg áreitni á vinnustað hafi á laun, framgang og stöðu einstaklinga á vinnumarkaði.

Lakari staða birtist í lægri launum og áreitni

„Ég tala stundum um valdbundið ofbeldi,“ segir Drífa. „Ég tel að það sé engin tilviljun að þessar sögur sem hafa verið að berast núna, hafi byrjað í greinum þar sem fólk er beinlínis að leggja persónu sína að veði,“ segir hún og nefnir listafólk og stjórnmálamenn í þessu sambandi. 

„Ég velti líka fyrir mér tengslum launamunar og áreitni. Bæði hvort launamunur sé sprottinn út frá því að konur séu metnar skör lægra og síðan hvaða áhrif ofbeldið og áreitnin á vinnumarkaði hafi á sjálfstæði kvenna, heilsu þeirra og möguleika til að krefjast hærri launa og betri stöðu.“

Ljóst megi telja að áhrif slíks ofbeldis séu neikvæð. „Mín niðurstaða er sú að þetta eru tvær hliðar á sama peningnum, þetta er orsök og afleiðing og það þarf að skoða heildarmyndina.“ 

Að sínu mati sé hún sú að staða kvenna á vinnumarkaði sé lakari en staða karla. Það birtist meðal annars í kynbundnum launamuni og kynferðislegri áreitni. Þannig er baráttan gegn ofbeldi barátta fyrir launajafnrétti og barátta fyrir launajafnrétti barátta gegn ofbeldi.“ 

Mörkin milli þjónustu og starfsmanns ekki skýr í huga allra

Drífa nefnir að Starfsgreinasambandið sé núna með átak í gangi fyrir fólk í þjónustustörfum, enda lengi verið í umræðunni að fólk í veitingahúsageiranum verði fyrir kynferðislegri áreitni. „Það er tenging milli áreitni og menningar þar sem er þjórfé, þannig að þessi mörk á milli þess að bjóða þjónustu og bjóða sjálfan sig eru ekki alltaf skýr í hugum margra viðskiptavina. Þannig að það eru ákveðnar stéttir sem eru í meiri hættu að verða fyrir áreitni tel ég alveg öruggt og þjónustustörfin eru þar ekki undanþegin.“

Hún nefnir einnig þau störf þar sem fólk er í erfiðri valdastöðu á vinnumarkaði. „Til dæmis er verið að vekja athygli á því úti í heimi núna að áreitni og ofbeldi er meira hjá fólki sem er ekki með atvinnuleyfi.“ Sömuleiðis séu þeir sem eru í tímabundnum störfum og ekki með fasta stöðu í aukinni hættu. „Þetta veikir stöðu viðkomandi á vinnumarkaði og veldur því að hann er í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi.“

Atvinnurekendur þurfa að axla ábyrgð

Drífa segir atvinnurekendur þurfa að axla ábyrgð á því að breyta menningu á vinnustöðum, m.a. með því að vera með skýra verkferla og halda úti stefnu þar sem ofbeldi og áreitni líðist ekki. „Síðan er það sterkt ákall í þessum byltingum öllum að karlarnir taki boltann og segi: „Við ætlum ekki að sitja hjá lengur, við ætlum ekki að leyfa þessu að gerast og við ætlum ekki að gera þetta“. Það er kannski það sterkasta,“ bætir hún við.

„Svo eiga náttúrulega allir vinnustaðir landsins að vera með áætlanir um öryggi og aðbúnað og í því felst að gera hættumat á svona vinnuaðstæðum. Þannig að ég reikna með að margir vinnustaðir landsins fari að spýta í lófana.“

Hádegisfyrirlesturinn er liður í alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert