Vilja „gera betur en Parísarsamkomulagið“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Umhverfismál eru veigamikil í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Í sáttmálanum segir að stefnt sé að því að „gera betur en Parísarsamkomulagið“, með því að stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri náttúruverndarsamtakanna Landverndar frá árinu 2011, verður umhverfisráðherra, utan þings, en hann var skipaður í embætti af Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Meginforsenda loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins, en í sáttmálanum er bent á að hvergi í heiminum hafi hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum. Ísland eigi því að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið ogsjávarútveginn.

Þá setur ríkisstjórnin sér það markmið að ná 40% samdrætt í losun gróðurhúsalofttegunda , miðað við árið 1990, fyrir árið 2030. 

Kolefnishlutleysi Íslands skal síðan nást í síðasta lagi árið 2040. Því verður náð með „varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en einnig með breyttri landnotkun í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og með hliðsjón af vistkerfisnálgun og skipulagssjónarmiðum,“ að því er segir í sáttmálanum. 

Kolefnisgjald verður hækkað um 50% á næstunni og verður svo áfram hækkað á næstu árum í takt við væntanlega aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þá verður undanþágum frá kolefnisgjaldi fækkað.

Ívilnanir til nýfjárfestinga taki tillit til loftslagsáhrifa

Atvinnugreinar, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög verða studd af ríkinu í þeirri viðleitni að setja sér loftslagsmarkmið og ríkisstjórnin stefnir að því að allar stærri áætlanir íslenska ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum.

Til að mynda munu ívilnanir til nýfjárfestinga byggjast á því að verkefnin hafi verið metin út frá loftslagsáhrifum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um samdrátt í gróðurhúsalofttegundum. Lögð verður áhersla á að allir geirar samfélagsins og almenningur taki þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Sérstakt Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð. Í þeirri aðgerðaáætlun verða meðal annars sett markmið um samgöngur og það hlutfall ökutækja sem ganga fyrir vistvænni orku í bílaflota landsmanna, orkunýtni í atvinnulífinu, innleiðingu alþjóðlegra samninga um vernd hafsins, græn skref í ríkisrekstri og loftslagssjóð og stefnt verður að banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands.

Stefnt er að því að auka hlutfall ökutækja sem ganga …
Stefnt er að því að auka hlutfall ökutækja sem ganga fyrir vistvænni orku í bílaflota landsmanna. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Þá verður gengið til samstarfs við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar í samræmi við aðgerðaáætlun þar um. Einnig verður unnið með öðrum atvinnugreinum að sambærilegum verkefnum.

Þjóðgarður verður stofnaður á miðhálendinu

Ekki verður ráðist í línulagnir yfir hálendið og stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Einnig verða möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum skoðaðir.

Í sáttmálanum segir að það verði forgangsverkefni að nýta þá orku sem þegar hefur verið virkjuð með sem hagkvæmustum hætti. Í því skyni þurfi að treysta flutnings- og dreifikerfi raforku um allt land. Þá þurfi að setja lög um vindorkuver.

Stefnt er að því að setja langtímaorkustefnu í samráði allra flokka á kjörtímabilinu. Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af þessari orkustefnu, sem mun byggjast á „áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda um orkuskipti og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf.“

Í málefnasamningnum segir að sérstök áhersla verði lögð á friðlýsingar kosta í verndarflokki rammaáætlunar „auk verndarsvæða í samræmi við náttúruverndaráætlun með hliðsjón af
áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.“

Ríkisstjórnin vill stofna þjóðgarð á miðhálendinu.
Ríkisstjórnin vill stofna þjóðgarð á miðhálendinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þá segir að með „bókhaldi náttúruauðlinda“ sé hægt að auka yfirsýn yfir auðlindir landsins og skilgreina nýtingu þeirra með sjálfbærni að leiðarljósi.

Átak gegn einnota plasti

Ríkisstjórnin hyggst ráðast í langtímaátak gegn einnota plasti, með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda. Í sáttmálanum segir einnig að gera þurfi átak á fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, en „veruleg þörf“ sé á uppbyggingu í málaflokknum.

Þá segir að endurskoða þurfi löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum í náttúru Íslands. Dýralífið sé hluti af íslenskri náttúru, sem beri að vernda.

mbl.is