Segist áfram lofa endurgreiðslu

Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism á Íslandi.
Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Á morgun er viðmiðunardagur Þjóðskrár til að meta trúfélagsskráningu fyrir næsta ár. Það þýðir að fjármunir sem fylgja hverjum félagsmanni í formi sóknargjalda ráðstafast á það trúfélag sem viðkomandi er skráður í. Í dag er því lokadagur fyrir komandi ár til að gera breytingar á trúfélagsskráningu sinni.

Fyrir tveimur árum varð talsverð hreyfing í þessum málum í lok nóvember þegar tilkynnt var um að trúfélagið Zuism á Íslandi ætlaði sér að endurgreiða félagsmönnum sóknargjöldin. Yfir 3.100 manns skráðu sig í trúfélagið, en endurgreiðslan lét standa á sér. Kom í ljós að hörð barátta átti sér stað um stjórn félagsins sem endaði með að sýslumaður úrskurðaði um að Ágúst Arnar Ágústsson yrði skráður forstöðumaður félagsins. Hafði úrskurðurinn þau áhrif að fjársýsla ríkisins greiddi félaginu 53 milljónir, en það var fyrir árin tvö þar á undan.

Upplýsingar um endurgreiðslu eftir lokadaginn

Talsverð leynd hefur legið yfir félaginu og eru til að mynda litlar upplýsingar um félagið, lög þess og annað sem við kemur rekstri félagsins að finna á heimasíðu þess. Ágúst segir í dag við mbl.is að búast megi við frekari upplýsingum um endurgreiðslu næsta árs í næstu viku, en þá er orðið of seint að gera ráðstafanir um trúfélagsskráningu sína fyrir komandi ár. Hann tekur þó fram að félagið muni endurgreiða upphæðina.

Deilan milli hópanna tveggja vakti nokkra athygli fjölmiðla í ljósi þess fjölda sem var búinn að skrá sig í félagið. Þá hvatti sá hópur, sem hafði staðið fyrir smöluninni og taldi sig hafa tekið félagið yfir, þá sem höfðu skráð sig til að afskrá sig aftur eftir að ljóst varð að þeir héldu ekki yfirráðum í félaginu.

Endurgreiddu í nóvember en illa auglýstur umsóknarfrestur

Ágúst var ekki hluti af þeim hópi sem hafði lofað endurgreiðslu á sóknargjöldum og vildi strax eftir að úrskurðurinn lá fyrir ekki tjá sig hvort að orðið yrði við fyrri loforðum þeirra sem náðu að smala í félagið um slíka endurgreiðslu, en hún nemur um 10 þúsund krónum árlega.

Þann 3. nóvember sendi félagið frá sér tilkynningu þar sem sagt var frá því að greiða ætti sóknargjöldin til baka, en að umsóknarfrestur um slíkt væri til 15. nóvember.  Daginn eftir fengu þeir sem höfðu sótt um endurgreiðslu inn á bankareikning sinn, en fljótlega bar á óánægju félagsmanna sem meðal annars hafa haft samband við mbl.is og bent á að tilkynningin hafi verið mjög lítið auglýst og tímabilið til að sækja um hafi verið stutt. Þá hafi ekkert komið fram upphaflega að um lokað umsóknartímabil væri að ræða. Ágúst hefur ekki viljað gefa upp hversu margir sóttu um endurgreiðslu eða fengu útgreitt, en hann segir að félagið hafi greitt um 2,5 milljónir til góðgerðamála, sem var einn af valmöguleikum þeirra sem sóttu um.

Mynd/Facebooksíða Zúista

Auglýsa félagið á Facebook og með dreifipósti

Í samtali við mbl.is í dag segir Ágúst að þeim sem standi að dag að félaginu hafi þótt mikilvægt að geta sýnt fram á að félagið myndi endurgreiða upphæðina og að tímaramminn hafi verið settur til að geta ráðist í kynningu á félaginu áður en 1. desember rynni upp. Sagði hann mikla vinnu liggja á bak við endurgreiðsluna og því hafi þetta verið ákveðið á þennan hátt.

Félagið virðist aftur á móti vera í sóknarham þessa dagana, því undanfarið hefur félagið auglýst að hægt sé að skrá sig í félagið, bæði með útsendingu á dreifimiða í hús á höfuðborgarsvæðinu sem og með auglýsingum á Facebook.

„Það verður endurgreitt, eins og ég hef alltaf sagt“

Spurður hvort ekki hefði verið réttara að opna fyrir skráningu á ný fyrir 1. desember til að svara gagnrýnisröddum og staðfesta að þeir myndu standa að framtíðarendurgreiðslum segir Ágúst að stefnt sé að því að tilkynna í næstu viku hvernig staðið verði að næstu endurgreiðslu. „Það verður endurgreitt, eins og ég hef alltaf sagt,“ segir Ágúst og bætir við að þeir sem ekki hafi sótt um síðast muni geta sótt um endurgreiðslu aftur fyrir síðustu tvö ár.

Ágúst hefur áður sagt að fagaðilar sjái um endurgreiðsluferlið og fjármál félagsins. Hann hefur hins vegar ekki viljað gefa upp hverjir það séu, en segir að um sé að ræða löggilda endurskoðendur. Segir hann að hægt verði að sjá það þegar þar að kemur þegar ársreikningi félagsins verði skilað.

Gefur ekki upp fjölda þeirra sem fengu endurgreitt

Ágúst segist spurður um fjölda þeirra sem hafi fengið endurgreitt ekki hafa þá tölu hjá sér og ekki heldur hvort um sé að ræða hundrað félaga, fimm hundruð eða mun fleiri. Þá segist hann heldur ekki vilja gefa upp hversu há upphæð hafi staðið eftir af þeim 53 milljónum sem félagið fékk greitt eftir útgreiðsluna. „Ég ætla ekki að fara í fjármál félagsins núna, geri það síðar,“ segir hann og segir að þessar tölur muni koma fram í ársreikningnum.

Spurður hvernig stjórnun félagsins sé háttað segir Ágúst að hann sé skráður forstöðumaður og stjórnarformaður þess. Auk hans sitji tveir aðrir í stjórn félagsins. Spurður um hvenær aðalfundur félagsins fari fram og hvenær ársreikningur verði birtur segir Ágúst að það sé ekki ákveðið enn en stjórn muni skoða slíkt fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert