Vilja hraða uppbyggingu samgönguinnviða

Sigurður Ingi Jóhannsson er nýr ráðherra samgöngumála.
Sigurður Ingi Jóhannsson er nýr ráðherra samgöngumála. mbl.is/Eggert

Mörg brýn verkefni blasa við Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokks og nýjum ráðherra samgöngumála. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er töluvert fjallað um samgöngumál og þar kemur fram að ríkisstjórnin vilji hraða uppbyggingu í samgönguinnviðum landsins, bæði með nýframkvæmdum og viðhaldi.

Stjórnarsáttmálinn nefnir ekki neinar sérstakar framkvæmdir í vegamálum, sem settar verði í forgang. Þó kemur fram að við forgangsröðun í vegamálum muni sérstaklega verða horft til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. 

Hins vegar er nokkuð minnst á almenningssamgöngur. Fram kemur að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um allt land og að stutt verði við Borgarlínu, í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Einnig segir að auka þurfi möguleika gangandi og hjólandi vegfarenda í þéttbýli.

Ekkert minnst á Reykjavíkurflugvöll

Varðandi flugsamgöngur innanlands segir að unnið verði að því að gera innanlandsflug að „hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna“. Ekki er minnst einu orði á framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri í málefnasáttmála stjórnarflokkanna, en Jón Gunnarsson, sem áður fór með málaflokkinn, hefur talað fyrir uppbyggingu nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli.

Varðandi millilandaflug segir í sáttmálanum að huga þurfi að „möguleikum til að opna fleiri hlið inn til landsins og fjölga þannig þeim svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu“, en flugvellirnir á Egilsstöðum og Akureyri eru báðir alþjóðaflugvellir.

Ekki er minnst einu orði á framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri …
Ekki er minnst einu orði á framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri í málefnasáttmála stjórnarflokka mbl.is/Sigurður Bogi

Ýmis mál tengd samgöngum snerta einnig málaflokka sem eru innan annarra ráðuneyta og ef til vill ekki síst umhverfismál.

Í væntanlegri aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, sem mun heyra undir nýtt Loftslagsráð, verður sett markmið um samgöngur og hlutfall ökutækja sem ganga fyrir vistvænni orku í bílaflota landsmanna, að því er fram kemur í stjórnarsáttmálanum.

Í stjórnarsáttmálanum segir að huga þurfi að fleiri hliðum inn …
Í stjórnarsáttmálanum segir að huga þurfi að fleiri hliðum inn í landið til eflingar ferðþjónustu. Myndin er frá Egilsstaðaflugvelli. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert