Fengu sér í nefið við lyklaskiptin

Sigurður Ingi Jóhannsson og Jón Gunnarsson fengu sér í nefið …
Sigurður Ingi Jóhannsson og Jón Gunnarsson fengu sér í nefið í tilefni dagsins. mbl.is/Eggert

„Það eru fjölmörg verkefni hér og ég hlakka mjög til að komast inn og fara að bretta upp ermar og fara að gera eitthvað,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem í dag tók við lyklavöldum að samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu af Jóni Gunnarssyni.

Jón Gunnarsson óskaði Sigurði Inga alls hins besta í nýju starfi og Sigurður Ingi þakkaði Jóni sömuleiðis fyrir vel unnin störf. Tókust þeir í hendur og fengu sér síðan saman í nefið. „Ég var nú búinn að lofa að hætta þessari vitleysu – en bara fyrir þig,“ sagði Sigurður Ingi þegar Jón bauð honum í nefið.

Aðspurður segir Sigurður Ingi ráðuneytið vera eitt þeirra ráðuneyta sem framsóknarmenn hafi haft mikinn áhuga á. „Það er mjög langt síðan við höfum verið hér í þessu ráðuneyti og í menntamálunum þannig að það var svona ný nálgun á því að fara að koma kröftum okkar í einhverjar framkvæmdir,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Jón Gunnarsson við lyklaskiptin í samgöngu- …
Sigurður Ingi Jóhannsson og Jón Gunnarsson við lyklaskiptin í samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu. mbl.is/Eggert

Kveðst hann hafa fylgst með störfum Jóns í ráðuneytinu upp á síðkastið og segir hann hafa unnið gott starf. „Ég veit að ég mun líka kalla í þig á fund hérna í ráðuneytinu, þá förum við yfir hvar er skynsamlegast að halda áfram með góðu málin og hvaða mál væri skynsamlegt að láta bíða aðeins,“ sagði Sigurður Ingi léttur í bragði.

Kveður sáttur en sér eftir ráðuneytinu

Um leið og hann óskaði Sigurði Inga velfarnaðar kvaðst Jón kveðja ráðuneytið fullur þakklætis og skilur sáttur við störf sín í ráðuneytinu.

„Þú ert að koma hér inn í ráðuneytið sem að við settum á laggirnar í vor. Við höfum verið að móta hér starfið, tekur hér við mjög góðu starfsfólki, góðum starfsanda. Það hafa verið eins og þú veist sjálfur, mikil afköst hér á skömmum tíma þannig að fólk er hér mjög tilbúið að leggja sig fram og er metnaðarfullt í starfi. Það eru líka hér mjög mörg góð mál sem eru tilbúin sem ég er tilbúinn að taka við í þinginu eftir helgi ef þér líst á að leggja áfram með þau veginn,“ sagði Jón.

Hann viðurkennir þó að hann muni vissulega sjá eftir ráðuneytinu en hann er eini ráðherra Sjálfstæðisflokksins  úr síðustu ríkisstjórn sem þarf að víkja úr ráðherrastól. „Það er nú einhver misskilningur ef að menn halda það, þegar maður er í pólitík, að maður stökkvi upp og hrópi húrra þegar maður stendur upp úr svona stól,“ segir Jón, spurður hvort hann muni sjá eftir embættinu. „Þannig að mér finnst spurningin svara sér sjálf.“

mbl.is