Meirihlutinn sprunginn í Vopnafirði

Vopnafjörður.
Vopnafjörður. Ljósmynd/HB Grandi

Meirihluti sveitarstjórnar Vopnafjarðar er sprunginn. Ekki hefur verið myndaður nýr meirihluti. Stefán Grímur Rafnsson, oddviti (Ð), staðfestir þetta. Í meirihluta sveitarstjórnar áttu sæti tveir einstaklingar af lista Betra Sigtúns (Ð) og tveir af K-lista, Lista félagshyggju (K). 

„Það er ekki lengur vilji til samstarfs,“ segir Stefán Grímur, spurður hvers vegna meirihlutinn hafi sprungið. Hann vildi ekki tjá sig um málið frekar. Inntur eftir því hvenær nýr meirihluti verður myndaður svaraði hann því til að það lægi fyrir áður en næsti hreppsnefndarfundur yrði í þarnæstu viku. Á þeim fundi verður haldið áfram vinnu við fjárhagsáætlun næsta árs. 

Spurður hvort Betra Sigtún færi í samstarf við Framsóknarflokkinn, sem á þrjá menn í sveitarstjórn og situr í minnihluta, sagðist hann ekki geta svarað til um það. Hann vísaði til hins möguleikans, að Framsókn og K-listi gætu líka myndað meirihluta. 

„Ég hef átt í góðum samskiptum við allt þetta fólk. Ég óttast ekki næstu skref,“ segir  Ólafur Áki Ragnarsson sveitarstjóri. Þrátt fyrir að meirihlutinn hafi sprungið þá mun hann halda áfram sem sveitarstjóri, honum hafi verið greint frá því í dag. 

Framsóknarflokkurinn hlaut mesta fylgið

Úrslit sveitarstjórnarkosninganna  31. maí 2014 voru eftirfarandi: B-listi, Framsóknarflokkur og óháðir, hlaut 178 atkvæði, 37,4% og 3 fulltrúa. Ð-listi, Betra Sigtún, hlaut 164 atkv., 34,5% og 2 fulltr. K-listi, Listi félagshyggju, hlaut 118 atkv., 24,9% og 2 fulltr.

Á kjörskrá voru 542 kjósendur og atkvæði greiddu 476 eða 87,8%. Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert