Handsamaði og hlúir að máttförnum haferni

Síðustu fjórar vikur höfðu Snorri Rafnsson, sem einnig er þekktur sem Vargurinn, og faðir hans fylgst með haferni í nágrenni Ólafsvíkur sem virtist heldur máttfarinn. Nokkrum sinnum hafði Snorri reynt að nálgast fuglinn en aldrei orðið ágengt fyrr en á fimmtudaginn þegar honum tókst að handsama fuglinn.

Um er að ræða fugl á fyrsta ári sem ólíklegt var orðið að kæmist á legg. Hefur hann síðustu daga verið í matarveislu hjá Snorra og meðal annars fengið skarfabringur og lifur, en Snorri er sjálfur atvinnuveiðimaður og býr þar með betur en flestir að allskonar villibráð sem hafernir eru hrifnir af. Þrátt fyrir veiðimennskuna segir Snorri að þegar komi að friðuðum og fágætum fuglum eða dýrum í vanda vilji hann hjálpa þeim og það hafi hann gert í þessu tilfelli sem og fleirum.

Snorri segir að fuglinn hafi verið nokkuð máttfarinn þegar þeir …
Snorri segir að fuglinn hafi verið nokkuð máttfarinn þegar þeir hafi handsamað hann og hann hafi ekkert reynt að komast í burtu. Síðan hann hafi farið að borða hafi fuglinn aftur á móti braggast nokkuð. Ljósmynd/Snorri Rafnsson

Þúsundir fylgdust með á Snapchat

Snorri er einn af vinsælli samfélagsmiðlastjörnum Íslands, en yfir 12 þúsund manns fylgjast reglulega með innslögum hans á Snapchat. Þar fær folk að fylgjast með honum á veiðum og við annað sem tengist veiðum. Það vakti sérstaka athygli þegar hann og faðir hans náðu haferninum á fimmtudaginn, en meðal annars var tekin mynd af honum þar sem þessi tignarlegi fugl situr á herðum hans með vængina þanda. Fylgjast má með ævintýrum Snorra á Snapchat undir nafninu Vargurinn.

Aðeins 75 varppör á landinu

Hafernir eru nokkuð sjaldgæfir fuglar hér á landi, en þeir hafa verið alfriðaðir í áratugi. Þegar eitrað var fyrir refum hér á árum áður gekk það nokkuð nærri stofninum, en í dag telur hann 75 varppör að sögn Róberts Arnars Stefánsson, forstöðumanns Náttúrustofu Vesturlands.

Fullvaxinn fugl er um 70-90 sentímetra langur og með vænghaf upp á 2-2,4 metra. Vegur fullvaxinn fugl 5 kíló, en karlfuglar eru minni en kvenfuglar.

Róbert, sem er einn helsti hafarnarsérfræðingur landsins, segir í samtali við mbl.is að tvö af hverjum þremur varppörum verpi við Breiðafjörð, en önnur pör sé meðal annars að finna á Vestfjörðum, við Húnaflóa og á nokkrum stöðum á Vesturlandi.

Við lok myndatökunnar klifraði haförninn upp af öxlum Snorra og …
Við lok myndatökunnar klifraði haförninn upp af öxlum Snorra og læsti klónum í höfuð hans. Þrátt fyrir að um ungan fugl sé að ræða eru þeir strax orðnir mjög sterkir. Ljósmynd/Snorri Rafnsson

Fáir ungar sem komast á legg

Hvert par verpir einu eggi og stundum tveimur. Hann segir varpárangurinn aftur á móti frekar lélegan og að aðeins 25-30 pör komi upp ungum á hverju ári. Ungarnir eru oft á tíðum vel fram á vetur í óðali foreldranna, en Róbert segir að örninn sem Snorri hafi fangað hafi verið kominn nokkuð langt að heiman. Fuglinn hafi verið merktur í Hamarsfirði í vor en hafi nú verið kominn við Ólafsvík. Segir hann fjölda fólks hafa tekið eftir honum undanfarnar vikur og bent á að flugfærni hans væri takmörkuð og að svo virtist vera sem hann hefði misst kraft.

Verður sleppt eða fer í endurhæfingu í Húsdýragarðinum

Í samráði við Náttúrustofuna segir Snorri að á mánudaginn muni dýralæknir kíkja á fuglinn, sem er nú í góðu yfirlæti heima hjá honum. Komi í ljós að hann hafi kraft til að bjarga sér sjálfur að nýju verður honum sleppt en annars gæti hann þurft að fara í Húsdýragarðinn í endurhæfingu.

Einnig má fylgjast með Varginum á Instagram hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert