Sambandslaus í Öræfum og óttuðust gos

Öræfajökull.
Öræfajökull. mbl.is/Rax

Ljósleiðari Mílu slitnaði ofan í Bakkakotsá milli Steina undir Eyjafjöllum og Víkur í Mýrdal á Suðurlandi um kl. 18:20 í gærkvöldi. Viðgerðum lauk upp úr hádegi í dag. Nokkrir sveitabæir í Öræfum voru bæði net- og símasambandslausir í allt gærkvöld. Íbúar á Hofsnesi í Öræfum fenga enga tilkynningu um hvað olli þessi og óttuðust um stund að gos væri hafið.   

„Þetta hefur aldrei gerst áður að bæði GSM-samband og netsamband detti út á sama tíma. Við fengum enga tilkynningu um hvað olli þessu. Það er ekki boðlegt og ótrúlegt í ljósi þeirra samræðna sem hafa átt sér stað undanfarnar vikur vegna yfirvofandi hættu á eldgosi í Öræfajökli og slæmu símasambandi í Öræfum,“ segir Matthildur Þorsteinsdóttir í Hofsnesi í Öræfum.

Gátu hlustað á útvarpið með herkjum

Á bænum er ekki heimasími heldur eingöngu farsímar. GSM samband var mjög óstöðugt þegar það komst aftur á. Matthildur segir fjölskylduna hafa verið rólega í fyrstu yfir þessu en þegar leið á kvöldið fóru þau að velta fyrir sér hvort gos væri hafið í Öræfajökli eða Heklu. Hún náði að hringja í neyðarlínuna 112 og ná SMS sambandi við móður sína til að ganga úr skugga um hvort gos væri nokkuð hafið. Í samtali við neyðarlínuna fékk hún þær upplýsingar að bilun hafi orðið á ljósleiðara.

Í ofan á lag er útvarpssamband slæmt á svæðinu. „Við hjónin fundum gamalt útvarp og gátum hlustaði með herkjum á fréttirnar en útvarpssendingar hafa ávallt verið slæmar á Hofsnesi svo það gekk frekar illa að fylgjast með,“ segir Matthildur og bætir við að útvarpssambandið hafi verið slæmt frá því hún flutti á svæðið fyrir 17 árum. Hún furðar sig á að ekki hafi verið minnst á netsambandsleysi í Öræfum í útvarpinu. Fjölskyldan fór að sofa í gærkvöldi varla með símasamband sem var þó orðið ögn skárra þegar þau vöknuðu í morgun.  

„Það er búið að lofa okkur öllu fögru um að bæta sambandið á svæðinu. Það þarf líka að láta fólk vita ef einhverjar bilanir verða á kerfinu. Það hefur alltaf verið gert hingað til og við látin vita ef við erum ekki í sambandi í einhvern tíma,“ segir Matthildur. Þess má geta að í samtali við mbl.is fyrir hádegi datt símasambandið nokkrum sinnum út á meðan samtalinu stóð. Þau kaupa þjónustu af Vodafone.  

Annarra fjarskiptafyrirtækja að láta notendur vita

„Ljósleiðarinn fór í sundur ofan í ánni sjálfri og þarf að leggja nýjan streng. Miklir vatnavextir í ánni voru gær,“ segir Sigurrós Jónsdóttir upplýsingafulltrúi Mílu. Hún segir að aðstæður hafi verið slæmar í gær, áin bæði vatnsmikil og mikið myrkur og því ekki hægt að gera við leiðarann. Strax í birtingu í morgun var hafist handa við að laga hann.

Sigurrós segir að um leið og vart verður við bilun er tilkynning send til fjölmiðla og öllum þeim fjarskiptafélögum sem kaupa af þeim þjónustu látin vita. Það sé þeirra hlutverk að vera í samskiptum við sína viðskiptavini og upplýsa um stöðu mála en ekki Mílu.   

Hún bendir á að í þessu tilviki hafi verið notast við hina leiðina það er að segja að sambandið hafi verið sent norður fyrir og því hafi þetta ekki komið niður á mörgum notendum.

Uppfært kl. 13:05: 

Viðgerð er lokið á sliti sem varð á Ljósleiðara Mílu á Suðurlandi. Slitið varð í Bakkakotsá og var lagður nýr strengur yfir ána til að gera við slitið.

mbl.is