KSÍ krefst fleiri miða á HM

Ísland fær ekki nægilega marga miða frá FIFA á heimsmeistaramótið …
Ísland fær ekki nægilega marga miða frá FIFA á heimsmeistaramótið að mati KSÍ. mbl.is/Golli

Nokkrar Evrópuþjóðir skrifa nú bréf til FIFA þar sem óskað er eftir að sambandið endurskoði ákvörðun sína varðandi miðaframboð. „Þessi 8% sem hver keppnisþjóð fær úthlutað teljum við ekki fullnægja okkar þörfum,“ segir Klara Bjartmarz framkvæmdarstjóri KSÍ.

Mikil samstaða meðal þjóðanna

Klara var á fyrirlestri í Moskvu á föstudagsmorgun þar sem fór fram kynning hjá FIFA á miðamálum og sköpuðust líflegar umræður. „Það er mikil samstaða meðal þjóðanna um að við erum ekki að fá nógu mikið af miðum“.

Klara segir Svía hafa haft ákveðið frumkvæði að þessu en Íslendingar, Danir, Portúgalar, Pólverjar og Serbar hafi stutt málflutning Svía. Þessar þjóðir skrifa nú FIFA í von um endurskoðun miðaframboðs. „Hvort það muni einhvern árangur bera er ekkert svo viss um en við munum allavega reyna,“ segir Klara.

KSÍ hefur verið í miklu samstarfi við Portúgal hvað varðar miðamál, bæði á EM og nú. Klara segir konuna sem sér um miðamál þar mjög reynda og hafa verið lengi í bransanum. En Portúgalar tóku þátt í álfukeppninni sem fór fram í Rússlandi í sumar og voru ekki ánægð með allt varðandi miðamál í þeirri keppni að sögn Klöru. „Þau eru svona að gefa okkur góðar leiðbeiningar og aðstoða okkur eins og þau geta.“

Fleiri þjóðir tóku til máls á fundinum í Moskvu en Klara segir vandamál þjóða ólík. Nefnir hún að sumar þjóðir séu í vandræðum með það hvernig miðakaupin sjálf fari fram að kröfu FIFA. Það sé vandamál fyrir suma að kaupin fari fram með kreditkorti og í Bandaríkjadollurum. „Það sem hentar okkur hérna í Evrópu hentar kannski ekki þeim sem koma frá Afríku.“

Mikilvægt að vanda miðakaup

Fyrsta hluta miðasölu er nú lokið og var gríðarleg aðsókn í miða, en 724.760 miðar voru seld­ir. Á þriðjudag fer önnur atrenna í gang og mikilvægt að hafa í huga að fyrirkomulagið er ekki fyrstur kemur fyrstur fær heldur er dregið úr umsóknum.

„Við biðjum fólk að flýta sér hægt og vanda sig,“ segir Klara og bætir við að dæmi hafa verið um að fólk hafi lent í vandræðum í Frakklandi hreinlega því þau flýttu sér of mikið. Þá hafi fólk til dæmis ekki skráð inn réttar upplýsingar en passa þarf upp á að heimilisföng og nöfn séu rétt færð inn og í samræmi við vegabréf.

Klara segist ekki kvíðin hvað samgöngur í Rússlandi varði og er bjartsýn á að þau mál verði í góðu lagi. „Lestarsamgöngur verða settar upp þannig að þær nýtast stuðningsmönnum og þetta verður ekkert vandamál,“ segir Klara. Þá verði sjálfboðaliðar úti götunum ásamt upplýsingastöndum í þeim borgum sem spilað er í.

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ segir Rússa leggja mikið í mótið.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ segir Rússa leggja mikið í mótið. mbl.is/Golli

Stuðningsmanna skilríki auðvelda lífið

Sækja þarf um það sem kallað „Fan-ID“ eða stuðningsmanna skilríki. Þau skilríki verða með mynd og munu auðvelda fólki lífið í Rússlandi töluvert að sögn Klöru. „Þau duga sem vegabréfsáritun, þú þarft þau til þess að komast á völlinn, þetta eru öryggisskírteini og veita frían aðgang í ákveðnar lestarferðar ásamt því að auðvelda aðgang að hótelum og öðru slíku,“ segir Klara.

Sótt er um skilríkin á sérstakri heimasíðu sem er á vegum rússneskra stjórnvalda en þau kosta ekki neitt. Þau eru í boði bæði sem rafræn skilríki og á pappír. Klara mælir með að fólk fái sér skilríki á pappír. Skilríkin eru svo send heim, sæki fólk um í tæka tíð. „Þetta var prufukeyrt í álfukeppninni og virkaði mjög vel. Það var samdóma álit Portúgala og annarra að þetta hafi verið mjög þægilegt fyrir stuðningsmenn.“

Verið að taka út leikstaði

Fimm manns eru enn úti í Rússlandi að sögn Klöru. „Víðir Reynisson öryggisstjóri, Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúi og Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari þeir fóru niður í hótelið sem við ætlum að vera á og síðan fóru tveir aðilar á vegum ferðaþjónustu fyrir okkur að skoða keppnisborgirnar.“ Liðið mun ferðast frá „heimahóteli“ um tveimur dögum fyrir leik á leikstað og verið er að taka út hótel á þeim stöðum.

Íslendingar voru snemma í því og völdu sér heimahótel í nóvember í fyrra. „Danirnir voru núna að ferðast um og skoða hótel, það er mjög fínt að vera búin að því,“ segir Klara.

Klara finnur fyrir miklum áhuga frá erlendum fjölmiðlum. „Erlendir fjölmiðlar, hvort sem þeir eru íþróttatengdir eða ekki, hafa mikinn áhuga á að sjá hvað við erum að gera og hvað við gerum sem er að virka hjá okkur," segir Klara. Þá séu fjölmiðlar ekki síður að heimsækja knattspyrnufélögin en knattspyrnusambandið sjálft.

 „Við gætum verið í fjölmiðlaviðtölum alla daga en okkar forgangsatriðið er náttúrlega að skipuleggja fótbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert