16 tíma bið á bráðadeild „óviðunandi“

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meðalbiðtíminn hjá sjúklingum á bráðadeild eftir því að leggjast inn á sérhæfðar legudeildir Landspítalans var 16 klukkustundir í október. Markmið spítalans er að sjúklingar leggist inn innan sex klukkustunda á legudeildir eftir að hafa lokið sinni bráðameðferð á bráðadeild.

„Við vitum að það er slæmt fyrir sjúklinga. Við vitum að það lengir spítalavistina þeirra og lengir veikindi þeirra. Í sumum tilfellum getur það gert veikindin alvarlegri,” segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans, um þessa löngu bið sjúklinga.

Dæmi eru um að sjúklingar þurfi að bíða í þrjá til fjóra sólarhringa eftir því að komast inn á sérhæfðar legudeildir Landspítalans.  

Þeir sem þurfa að bíða svona lengi eru einkum aldraðir, fjölveikir sjúklingar og sjúklingar sem þurfa að vera í einangrun af einhverjum orsökum.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans í Fossvogi.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Erill og gluggalaus rými 

Jón Magnús segir aðstæðurnar fyrir þá sjúklinga sem þurfi að bíða langtímum saman á bráðadeild ekki viðunandi enda sé deildin ekki hönnuð fyrir slíkt. „Það er stöðugur erill og helmingurinn af rýmunum er gluggalaus. Þetta er alls ekki viðunandi ástand fyrir sjúklingana okkar,” segir hann og vonast til þess að nýja ríkisstjórnin verði í góðu samstarfi við Landspítalann vegna þessa vandamáls og að alvara verði gerð úr því sem standi í stjórnarsáttmálanum.

Sjúkrahúsið á Akranesi.
Sjúkrahúsið á Akranesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Aldraðir fluttir til Akraness eða Borgarness

Spurður út í stöðu aldraðra á spítalanum segir hann að á hverjum tíma séu rúmlega eitt hundrað sjúklingar sem hafi lokið sérhæfðri meðferð sem þurfi að komast á dvalar- og hjúkrunarheimili. Af ýmsum ástæðum séu þeir orðnir of veikir eða af öðrum ástæðum ósjálfbjarga og komist ekki heim til sín aftur.

Til að reyna að koma til móts við þetta hefur Landspítalinn opnað 40 rúma rými á Vífilsstöðum. „Það hefur ekki dugað til og þess vegna höfum við gengið til samstarfs við sjúkrahúsið á Akranesi og hjúkrunarheimilið í Borgarnesi um að skjóta skjólshúsi yfir þessa einstaklinga þangað til þeir fá pláss á hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu,“ greinir hann frá.

Svandís Svavarsdóttir við er hún tók við lyklum að heilbrigðisráðuneytinu.
Svandís Svavarsdóttir við er hún tók við lyklum að heilbrigðisráðuneytinu. mbl.is/Árni Sæberg

Heilbrigðisáðherra komi sterkur inn

Mikið hefur verið fjallað um skort á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða en í stjórnarsáttmálanum er talað um að styrkja rekstrargrundvöll slíkra heimila. Jón Magnús segir vandann með rými á hjúkrunarheimilum vera annað af stóru vandamálum Landspítalans ásamt vaxandi skorti á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

„Við vonumst til að nýr heilbrigðisráðherra komi mjög sterkur inn og vinni með okkur í að leysa úr báðum þessum þáttum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert