Tímaáætlun vegna frumvarpsins stendur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það muni koma í ljós á morgun hvort hægt verður að ljúka við gerð fjárlagafrumvarpsins á morgun eins og stefnt var að.

„Við erum búin að vera í þessari vinnu í dag. Það er stefnt að því að við klárum þetta á morgun og sú tímaáætlun stendur,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Hún bætir við að eftir ríkisstjórnarfund í fyrramálið ætti að vera orðið ljóst hvenær verður hægt að kalla þing saman.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir á þingflokksfundi Vinstri grænna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir á þingflokksfundi Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Væntir þess að Rósa og Andrés verði í nefndum

Spurð út í skipan í nefndir Alþingis segir hún ríkisstjórnina stefna á fund með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna í vikunni til að fara nánar yfir nefndarskipan og þinghaldið fram undan.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn Vinstri grænna, samþykktu hvorugt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á dögunum. Hvað varðar þátttöku þeirra í nefndum segir Katrín nefndarskipan verða tekna fyrir innan þingflokks VG en það verði ekki alveg strax.

„Þing kemur væntanlega ekki saman fyrr en rétt undir miðjan mánuðinn og nefndarskipan verður ákveðin fyrir þann tíma en ég vænti þess að þau verði að sjálfsögðu í nefndum fyrir okkar hönd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert