40% leigjenda þiggja bætur

Um 40% leigjenda þiggja húsnæðisbætur samkvæmt könnunum Íbúðalánasjóðs. Tölur um greiddar húsnæðisbætur sýna að í október fengu um 14.100 heimili húsnæðisbætur, eða samtals um 26 þúsund manns, 8% allra landsmanna.

Fáir þiggja bætur í Garðabæ

„Talsverður munur er á milli sveitarfélaga í þessu tilliti. Þegar stærstu sveitarfélög landsins eru skoðuð kemur í ljós að í Reykjanesbæ, Reykjavík og á Akureyri eru hlutfallslega flestir bótaþegar húsnæðisbóta. Í þessum sveitarfélögum búa um eða yfir 10% íbúa á heimilum sem þiggja húsnæðisbætur. Í Fjarðabyggð og Garðabæ er þetta hlutfall aðeins um 3 prósent,“ segir í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Leiguverð hækkar en bætur lækka

Húsnæðisbætur eru búbót fyrir mörg heimili, sérstaklega þau tekjulægri. Um 70% heimila sem þiggja húsnæðisbætur eru með lægri heimilistekjur en 400 þúsund krónur á mánuði, og á meðal þessara heimila nema húsnæðisbætur að meðaltali 34% af greiddri leigu.

Milli apríl og október lækkaði meðalgreiðsla húsnæðisbóta úr 31.700 krónum í 30.400 krónur, eða um 4 prósent. Eigna- og tekjuskerðingar ásamt grunnfjárhæðum húsnæðisbóta héldust þó óbreyttar yfir tímabilið. Leiguverð fór hins vegar hækkandi á sama tímabili. Meðalleigufjárhæð meðal bótaþega húsnæðisbóta var um 1.560 krónur á fermetra í október og hafði hækkað um 3,2% síðan í apríl, eða um 6,5% á ársgrundvelli. Til samanburðar hækkaði leiguverðsvísitala Þjóðskrár Íslands um 0,9% á sama tímabili eða 1,8% á ársgrundvelli.

Miklu fleiri konur en karlar

Konur eru í miklum meirihluta meðal umsækjenda um húsnæðisbætur. Það á jafnt við um þá umsækjendur sem búa einir og þá sem búa með fleirum á heimili. Á meðal þeirra umsækjenda sem bjuggu einir þáðu 4.300 konur og 3.600 karlar húsnæðisbætur í september. Alls búa 56% bótaþega húsnæðisbóta einir á heimili.

„Lengd húsaleigusamninga er mikilvægur mælikvarði á það húsnæðisöryggi sem fylgir viðkomandi leiguhúsnæði. Tímabundnir húsnæðissamningar á meðal bótaþega húsnæðisbóta í september giltu að meðaltali í 18 mánuði,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Fátítt er að samningar gildi lengur en í 36 mánuði, en jafnframt afar fátítt að þeir gildi skemur en í 6 mánuði.

„Sé leigumarkaðurinn skoðaður eftir svæðum, eins og hann birtist í tölum um bótaþega húsnæðisbóta, kemur í ljós að fermetraverð leigu er hæst í póstnúmerum 105, sem nær til Hlíða og Túna í Reykjavík, 113 sem nær til Grafarvogs og Úlfarsárdals, og 107 sem nær til Vesturbæjar Reykjavíkur. Fermetraverð í Efra-Breiðholti er um 16% lægra en í póstnúmeri 105 og fermetraverð á Selfossi um 32% lægra en í 105, svo dæmi séu tekin.

Það skal ítrekað að þessar tölur ná aðeins til bótaþega húsnæðisbóta, en til að eiga rétt á slíkum bótum þurfa heimili meðal annars að vera undir tilteknum tekju- og eignamörkum. Á tímabilinu apríl til október hækkaði leigufjárhæð bótaþega húsnæðisbóta áberandi mikið á tveimur svæðum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þetta eru póstnúmerin 235, sem nær til Ásbrúar í Reykjanesbæ, og 270 sem nær til Mosfellsbæjar. Hins vegar lækkaði fermetraverð í 200 Kópavogi og 103 Reykjavík,“ segir ennfremur í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert