Fasteignaverð rýkur upp á Akureyri

Akureyri.
Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fasteignamarkaðurinn á Akureyri hefur tekið við sér upp á síðkastið. Í október hafði fasteignaverð á Akureyri hækkað um 21% milli ára, sem er mesta hækkun á ársgrundvelli sem orðið hefur þar í bæ frá því um mitt ár 2006. Til samanburðar hafði verð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 17% í október sem er ögn hægari taktur en var fyrr á þessu ári. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

„Að undanförnu hefur íbúum Akureyrar fjölgað jafnt og þétt. Í byrjun október bjuggu 18.710 manns á Akureyri og hafði íbúum sveitarfélagsins fjölgað um 220 á fyrstu 9 mánuðum ársins. Til samanburðar fjölgaði íbúum um 140 á sama tíma 2016. Búast má við því að fjölgun íbúa á svæðinu hafi ýtt undir aukna eftirspurn eftir húsnæði sem skýrir að einhverju leyti verðhækkunina á svæðinu,“ segir í skýrslunni.

Frá Akureyri
Frá Akureyri mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að raunverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hækkaði í nóvember eftir lækkun í október. Vísbendingar eru um að markaðurinn stefni í átt að auknu jafnvægi með auknu framboði af nýju húsnæði og hækkunum fasteignaverðs í takt við kaupmáttaraukningu. Síðustu misseri hefur aukning kaupmáttar þó verið minni en hækkun fasteignaverðs. Frá upphafi árs 2016 hefur raunverð fasteigna hækkað um 26% en kaupmáttur launa um 11%.

„Athygli vekur að fasteignamarkaður utan höfuðborgarsvæðisins tekur við sér. 26% fleiri kaupsamningum hefur verið þinglýst það sem af er ári á Norðurlandi samanborið við sama tíma fyrir ári síðan. Í október hafði íbúðaverð á Akureyri hækkað um 21% milli ára sem er mesta hækkunin á ársgrundvelli sem orðið hefur þar í bæ frá því um mitt árið 2006. Til samanburðar hafði verð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 17% í október,“ segir enn fremur í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert