Hafnar því að hafa beitt blekkingum

Paolo Macchiarini.
Paolo Macchiarini.

Skurðlæknirinn Paolo Macchiarini hafnar því að hafa blekkt Tómas Guðbjartsson lækni í svonefndu plastbarkamáli eins og Tómas hefur haldið fram. Plastbarkaígræðsla hafi verið varaáætlun við uppskurð á sjúklingi Tómasar, Andemariam Beyene.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins en fjallað verður um málið í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. Tómas sagði í svörum til íslenskrar rannsóknarnefndar sem fór yfir þátt íslenskra heilbrigðisstarfsmanna í málinu að Macchiarini  hefði blekkt sig og að hann hefði ekki vitað að til hafi staðið að græða plastbarka í sjúklinginn fyrr en hann hafi verið kominn til Svíþjóðar þar sem aðgerðin fór fram.

Macchiarini hafnar þessu. Hann hafi beðið Tómas um allar nauðsynlegar mælingar á barkanum svo hægt væri að framkvæma ígræðsluna. Það hafi hins vegar alltaf verið varaáætlunin. Tómas hafi vitað að reyna þyrfti eitthvað annað ef ekki tækist að fjarlægja krabbameinsæxli úr barkanum og græða hann saman. Plastbarkaígræðsla hafi þó upphaflega ekki staðið til en ekki hafi hins vegar verið búið að útiloka nema aðgerð.

Macchiarini gagnrýnir ennfremur að honum hafi ekki verið veitt tækifæri til þess að svara spurningum í tengslum við rannsókn nefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert