Flugvirkjar kjósa um vinnustöðvun

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Kosning er hafin á meðal flugvirkja hjá Icelandair um vinnustöðvun. Kosningin mun standa yfir í 48 klukkustundir og er niðurstaðan væntanleg á föstudaginn.

Þetta staðfestir Gunnar R. Jónsson, varaformaður Flugvirkjafélags Íslands.

Sent hefur verið bréf til ríkissáttasemjara um kosninguna en ákveðið var að efna til hennar á stjórnarfundi Flugvirkjafélags Íslands í gær.

Spurður hvenær verkfall myndi hefjast ef vinnustöðvun verður samþykkt segir Gunnar að væntanlega yrði það fyrir áramót. Ekkert hafi þó verið ákveðið í þeim efnum.

Samn­ing­ar flug­virkja við Icelanda­ir losnuðu 31. ág­úst og var kjaraviðræðunum vísað til rík­is­sátta­semj­ara 8. sept­em­ber.

Síðan þá hefur verið fundað margsinnis, án árangurs. Níundi sátta­fund­ur flug­virkja og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, fyr­ir hönd Icelanda­ir, fór fram á mánudaginn. 

Alls starfa 280 flug­virkj­ar hjá Icelanda­ir og í heild­ina eru rúm­lega 500 flug­virkj­ar í Flug­virkja­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert