Mælt með meðferð en fær 5 mánaða dóm

Maðurinn var dæmdur til 5 mánaða fangelsisvistar þrátt fyrir að …
Maðurinn var dæmdur til 5 mánaða fangelsisvistar þrátt fyrir að sálfræðingur teldi að meðferð og önnur úrræði væru betur til þess fallin að fá manninn af leið fíknar og afbrota. mbl.is/Hari

Karlmaður um fertugt var í dag dæmdur í fimm mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir mikinn fjölda nytjastuldabrota sem hann framdi frá því í september á síðasta ári fram í janúar á þessu ári. Fyrir dómi sagði sálfræðingur að maðurinn þyrfti sérstaka meðferð til að vinna á bæði fíkniefnavanda sínum og kvíða. Dómari taldi þó ekki hægt annað en að dæma manninn í fangelsi án möguleika á skilorði vegna brotasögu hans.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa meðal annars stolið svefnpoka og reiðhjóli af einkalóð, jakka og peysu í verslun, kjúklingabringum, kaffikönnum, harðfiski og vesti. Ef frá er talið verðmæti svefnpokans og reiðhjólsins er verðmæti þeirra muna sem maðurinn stal innan við 50 þúsund krónur. Þá hafi hann fengið bifreið til reynsluaksturs með því að gefa upp nafn annars manns og ekki skilað bifreiðinni. Fyrir dómi játaði maðurinn brot sín skýlaust.

Sálfræðingur vann ítarlega skýrslu um hvort vímuefnameðferð sé vænlegri til árangurs en hefðbundin fangelsisvist með það fyrir augum að draga úr líkum á því að maðurinn gerist aftur brotlegur við lög. Kemur þar fram að maðurinn hafi glímt við fíkniefnavanda frá unglingsárum og hann þjáist af fjórum kvíðaröskunum sem eigi þátt í fíknivandanum með þeim hætti að þegar hann hafi áhyggjur eða verði kvíðinn noti hann vímuefni til að komast undan þeirri líðan. Þá vilji maðurinn einlæglega að segja skilið við neyslu og afbrot að sögn sálfræðingsins og hafi hann raunsæjar hugmyndir um möguleika sína og sé jákvæður fyrir meðferðarúrræðum.

Sagði sálfræðingurinn fyrir dómi að hann telji manninn geta nýtt sér meðferðarúrræði SÁA, en það sé ekki nægilegt fyrir vanda hans. Hann þurfi einnig á gagnreyndri meðferð við kvíða að halda og myndi hugræn atferlismeðferð á Teigi, sem sé göngudeild geðsviðs LSH, gagnast honum best. Þá þyrfti maðurinn styðjandi búsetu á áfangaheimili og taka þátt í skipulögðu endurhæfingarúrræði með sálfræðimeðferð.  „Slík meðferðaráætlun væri mun vænlegri til árangurs en fangelsisvist,“ segir í dóminum.

Þrátt fyrir þessa skýrslu sálfræðingsins er niðurstaða dómsins að maðurinn skuli dæmdur í 5 mánaða fangelsi án möguleika á skilorði. Það sé meðal annars vegna þess að með þessum dómi sé manninum dæmdur hegningarauki vegna fyrri brota og hann eigi langan sakaferil að baki.

Sérstaklega er tekið fram að innan refsivörslukerfisins séu ákveðin úrræði sem geti nýst manninum og að Fangelsismálastofnun geti tekið mið af skýrslunni við meðferð mála mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert