Nýr meirihluti á Vopnafirði

Vopnafjörður.
Vopnafjörður. mbl.is/Golli

B-listi Framsóknarflokks og óháðra og Ð-listi Betra Sigtúns hafa gert með sér samkomulag um meirihlutasamstarf í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps út kjörtímabilið, eftir að meirihluti þess síðarnefnda og K-lista félagshyggjufólks sprakk í síðustu viku. Gert er ráð fyrir að Ólafur Áki Ragnarsson haldi áfram sem sveitarstjóri. Þetta staðfestir Stefán Grímur Rafnsson, oddviti Betra Sigtúns í samtali við mbl.is.

Í tilkynningu sem birtist fyrir skömmu á Facebook-síðu Betra Sigtúns segir að tekist hafi verið á um störf sveitarstjóra á fundi meirihluta sveitastjórnarinnar þann 30. nóvember síðastliðinn, í framhaldi af bréfi eins fulltrúa K-listans sem fjallaði um trúnaðarbrest við sveitarstjórann. Fulltrúinn baðst jafnframt lausnar vegna þessa trúnaðarbrests.

Í lok fundar hreppsnefndar sama dag lagði Ólafur Áki sveitarstjóri fram uppsagnarbréf og óskaði eftir því að vera leystur frá störfum. Ástæðuna sagði hann vera að ekki ríkti traust á milli hans og hluta meirihlutans.

Að ósk fulltrúa Betra Sigtúns var gert fundarhlé og í framhaldi af því var gert samkomulag milli aðila um að sveitarstjórn gæfist tækifæri til að fara yfir málið með það að leiðarljósi að finna leiðir sem leiddu til framhalds á störfum sveitarstjóra fyrir Vopnafjarðarhrepp.

Á föstudag, 1. desember,  slitu fulltrúar Betra Sigtúns meirihlutasamstarfi við K-listann. „Því ber að halda til haga að um nokkurn tíma hefur ekki verið ríkjandi ánægja meðal aðila innan fráfarandi meirihluta með störf sveitarstjóra,“ segir meðal annars í tilkynningunni. Ákvörðunin  hafi ekki verið tekin í flýti, þrátt fyrir að svo megi virðast, segir þar jafnframt.

„Það er von okkar sem stöndum að nýstofnuðum meirihluta að með þessu sé hægt að ljúka síðustu sex mánuðum kjörtímabilsins án þess að valda sundrung og upplausn í starfsemi sveitarfélagsins.

Yfir stendur vinna við gerð fjárhagsáætlunar og að henni lokinni taka við hefðbundin störf meðal annars við að framfylgja því sem þar er lagt til,“ segir einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert