Óforsvaranlegt að níðingur gangi laus

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms Suðurlands um að karlmaður sem grunaður er um að hafa brotið kynferðislega gagnvart ungum dætrum sínum skuli áfram sæta gæsluvarðhaldi til allt til 27. desember næstkomandi með tilliti til almannahagsmuna. Maðurinn hafði áður verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. nóvember.

Maðurinn er grunaður um að hafa ítrekað brotið gegn dóttur sinni þegar hún var fimm og sex ára gömul á hótelherbergi í útlöndum. Stúlkan hefur greint frá því að faðir hennar hafi nauðgað henni og er framburður hennar metinn afar trúverðugur. Rannsókn málsins er á lokastigi og verður það sent embætti héraðssaksóknara á næstu dögum.

Hjá embættinu er jafnframt til ákærumeðferðar annað mál á hendur manninum, þar sem honum er gefið að sök að ítrekað brotið gegn næst elstu dóttur sinni. Hún hefur greint frá því að fyrstu brotin hafi átt sér stað þegar hún var fimm eða sex ára. Hafi verið um að ræða samfarir þar sem hann stakk getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar. Eftir brotin sagði hann henni að segja engum frá og að hann ætlaði ekki að gera þetta aftur.

Maðurinn var árið 1991 dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gagnvart elstu dóttur sinni þegar hún var á aldrinum fimm til sjö ára.

Í úrskurði héraðsdóms segir að það sé mat lögreglustjóra að óforsvaranlegt sé að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á því að hann hafi framin svo alvarleg brot. Maðurinn er talinn hættulegur umhverfi sínu og brot hans séu þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að hann gangi laus á meðan mál hans séu til meðferðar.

Var það mat Héraðsdóms Suðurlands að ekkert nýtt hefði komið fram sem gæti haggað fyrra mati dómstóla í málinu. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð í dag og sætir maðurinn því áfram gæsluvarðhaldi til 27. desember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert