Ósáttir við vinnubrögð sveitarstjórans

Óánægja með sveitarstjórann jókst eftir því sem leið á kjörtímabilið.
Óánægja með sveitarstjórann jókst eftir því sem leið á kjörtímabilið. Ljósmynd/HB Grandi

Meirihlutasamstarf Ð-lista Betra Sigtúns og K-lista félagshyggju í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps sprakk í síðustu viku, en nú hefur fyrrnefndi listinn myndað meirihluta með B-lista Framsóknarflokks og óháðra.

K-listinn sendi frá sér yfirlýsingu vegna vegna málsins í gær þar sem fram kom að fulltrúar listans hefðu oft verið ósáttir við vinnubrögð sveitarstjórans, Ólafs Áka Ragnarssonar, og hefði óánægjan ágerst eftir því sem liðið hefði á kjörtímabilið. Þá hefðu þrír nefndarmenn meirihlutans sagt sig úr nefndum vegna trúnaðarbrests og erfiðra samskipta við sveitarstjórann.

„Fyrir rúmum mánuði síðan tjáðu fulltrúar K-listans fulltrúum Betra Sigtúns vilja sinn til að segja sveitarstjóra upp störfum; m.a. vegna áðurnefndra atriða. Á þeim tímapunkti voru fulltrúar Betra Sigtúns ekki tilbúnir að taka þá ákvörðun,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Á meirihlutafundi 30. nóvember var lagt svo fram bréf frá öðrum fulltrúa K-listans þar sem óskað var eftir lausn frá setu í sveitarstjórn vegna trúnaðarbrests og erfiðra samskipta við sveitarstjóra. Um efni bréfsins sköpuðust umræður þar sem sveitarstjóri var gagnrýndur af fulltrúum beggja framboða sem leiddi til þess að Ólafur Áki yfirgaf fundinn.

Á sveitarstjórnarfundi seinna um daginn lagði Ólafur Áki svo fram uppsagnarbréf þar sem hann óskaði eftir að láta nú þegar af störfum. Eftir fundarhlé dró hann bréfið hins vegar til baka.

Daginn eftir, 1. desember, sendu fulltrúar Betra Sigtúns tölvupóst til fulltrúa K-listans þar sem þau slitu meirihlutasamstarfinu. Í kjölfarið mynduðu fulltrúar Betra Sigtúns nýjan meirihluta með Framsóknaflokknum þar sem gert er ráð fyrir því að Ólafur Áki verði áfram sveitarstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert