66% Íslendinga lesa einungis eða oftast á íslensku

Meirihluti Íslendinga les á íslensku og lesa eflaust margir einhverja …
Meirihluti Íslendinga les á íslensku og lesa eflaust margir einhverja góða bók um jólin. mbl.is/Eggert

Mikill meirihluti þjóðarinnar les eingöngu eða oftast á íslensku. Miðstöð íslenskra bókmennta lét nýlega gera könnun á viðhorfi þjóðarinnar til bóklesturs, þýðinga og opinbers stuðnings við bókmenntir. Meirihluti Íslendinga er sammála þeirri fullyrðingu að mikilvægt sé að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku, auk þess er meirihluti landsmanna sammála þeirri fullyrðingu að mikilvægt sé að íslensk bókmenning hafi aðgang að opinberum stuðningi. Þetta kemur meðal annars fram í könnuninni. 

Zenter rannsóknir framkvæmdu könnunina á tímabilinu 23. október til 8. nóvember 2017, hún náði til 1.340 einstaklinga, 18 ára og eldri, og var svarhlutfall 54%. Tekið er tillit til kyns, aldurs og búsetu. 

Yngri en 34 ára lesa síður á íslensku en þeir eldri

Um 66% Íslendinga lesa einungis eða oftar á íslensku en á öðrum tungumálum. 28,9% lesa einungis á íslensku, 36,7% lesa oftar á íslensku og 17,5% lesa jafnoft á íslensku og öðru tungumáli. 15,6% svarenda lesa oftar á öðru tungumáli en íslensku og 1,3% lesa einungis á öðru tungumáli.

Þeir sem eru 34 ára og yngri lesa mun síður á íslensku en þeir sem eldri eru. 4% á aldrinum 18 til 24 ára lesa einungis á íslensku en hlutfallið er 51% hjá 65 ára og eldri. Íbúar á landsbyggðinni lesa einnig frekar á íslensku en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi lesa síður á íslensku en aðrir hópar og námsmenn síður en aðrir.

77,5% sammála að íslensk bókmenning njóti opinbers stuðnings

77,5% eru sammála þeirri fullyrðingu að mikilvægt sé að íslensk bókmenning hafi aðgang að opinberum stuðningi. Yngsti aldurshópurinn, 18 til 24 ára, er meira sammála en þeir sem eldri eru og konur meira sammála en karlar. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru meira sammála en íbúar landsbyggðarinnar og einstaklingar með háskólapróf meira sammála en aðrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert