NATO á flugskýlið en Bandaríkin borga

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. mbl.is/Rax

Kafbátum á sveimi við Ísland hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Eftirlit með þeim hefur aukist samfara því og hefur viðdvöl kafbátaleitarflugvéla Atlantshafsbandalagsins og Bandaríska hersins á Íslandi aukist á síðustu árum. Það sem af er ári hafa vélarnar verið 122 daga að störfum hér á landi en árið 2014 voru þær 21 dag. Árið 2016 voru dagarnir 77 talsins. Þetta kemur fram í upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Bandaríski herinn hyggst breyta flugskýlinu á Keflavíkurflugvelli svo nýjar og stærri kafbátaleitarvélar, svokallaðar P8 Poseidon, geti rúmast þar. Flugskýlið er í eigu Atlantshafsbandalagsins en Bandaríkin hyggjast fjármagna framkvæmdirnar. Til stendur meðal annars að styrkja gólfið og stækka hurð skýlisins.  

Aukin umsvif hersins ekki á stefnuskránni

„Það er ekkert slíkt á stefnuskránni. Það er alveg skýrt að það þarf að fylgjast með aukinni umferð kafbáta við Ísland. Þetta fer eftir því,“ segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytis, spurð hvort Bandaríkjaher hyggist auka umsvif sín hér á landi í ljósi breytinga á flugskýlinu. Hún bendir jafnframt á að það hafi hvorki komið til tals af hálfu íslenskra stjórnvalda né bandarískra að auka frekar umsvif hersins hér á landi.

Hún segir jafnframt að slíkar endurbætur séu í fullu samræmi við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem tilgreinir að tryggja þurfi að til staðar séu í landinu varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum.

Íslensk stjórnvöld eru vel upplýst um stöðu mála hverju sinni og eru í góðu sambandi við varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og bandarísk stjórnvöld, að sögn Urðar spurð nánar um samstarf landanna tveggja. 

Loftrýmisgæslan svipuð milli ára 

Ríki NATO sinna loftrýmisgæslu við Ísland, og slíkri flugsveit geta fylgt á bilinu 70-250 manns sem þá dvelja á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Viðdvöl kafbátaleitarflugvéla ræðst af fyrirliggjandi verkefnum á hverjum tíma og er liðsaflinn mjög breytilegur, eða allt frá 10-300 manns.

Í gildi er varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951 og þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland, sem og samkomulag á milli Íslands og Bandaríkjanna frá lok júní á síðasta ári. Í því samkomulagi er formfest aukin viðvera Bandaríkjahers hér á landi, einkum í tengslum við loftrýmisgæslu hér á landi.

Tekið er fram að eðli málsins samkvæmt munu öryggishorfur í Evrópu og á norðanverðu Atlantshafi ráða miklu um umsvif starfsemi Bandaríkjahers, en engar viðræður eiga sér stað við Bandaríkin um annað fyrirkomulag en samið var um á síðasta ári. 

Þess má geta að lítil breyting er á fjölda daga eftirlitsvéla með lofthelgi landsins frá 2014 og það sem af er líðandi ári.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert