„Var valin vegna þess að ég er kona“

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segist hafa glímt …
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segist hafa glímt við ansi margar árásir í gegnum árin en sýruárás á heimili hennar árið 2009 hafi verið sú svæsnasta. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Lögregla og önnur yfirvöld brugðust þegar sýruárás var gerð á heimili Rannveigar Rist, forstjóra Rio Tinto á Íslandi. Það er hennar mat á atburðunum sem áttu sér stað sumarið 2009. Þá segir hún að árásin hafi beinst gegn henni vegna kyns hennar.   

Rannveig rifjaði upp árásina og eftirmála hennar í viðtali í Kastljósi á Rúv í kvöld.

„Þetta var í ágústmánuði 2009 og við vorum í sumarfríi öll fjölskyldan og vorum heima. Við förum niður og sjáum að það er búið að setja mikið af grænni málningu á húsið og innganginn og það stóð: hér býr illvirki. Þetta var málað á veggina og sérstaklega undir gluggana þar sem börnin sváfu. Þannig að svolítið eins og það væri búið að stúdera húsið,“ sagði Rannveig.

Fékk sár í andlitið vegna sýrunnar

Rannveig fann skrýtna lykt fyrir utan heimilið en gerði sér ekki grein fyrir í fyrstu að sýru hafði verið skvett yfir bíl hennar. „Ég opnaði bílinn vegna þess að hann var allur út í einhverju, það var svona eins og lakkið væri að hluta til uppleyst, en það var allt þurrt svo við sáum ekki strax að þetta væri sýra. Ég opnaði bílinn og í hurðarfalsinu var greinilega vatn, þannig að það var vatnsblönduð sýra sem var í falsinu, það komu dropar í andlitið á mér og ég fékk sár af þeim. Ég var heppin að fá þá ekki í augun. En ég fékk sár í andlitið sem ég átti í dálítið lengi, þannig að þetta var býsna alvarleg árás.“

Rannveig sagði að það hafi verið auðséð að árásin beindist gegn henni. „Það sáu það allir í áliðnaðinum að ég var valin vegna þess að ég er kona. [...] ég var eina konan sem stýrði álfyrirtæki og þess vegna varð ég sjálfsagt fyrir valinu.“

Rannveig kærði árásina en málið var fellt niður í tvígang. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem greint var frá í Kastljósi, tókst ekki að afla nægra sönnunargagna til að sýna fram á hverjir voru að verki á heimili Rannveigar og því var málið látið niður falla.

Skrýtið að árásin hafi ekki verið tekin alvarlega

Þegar hún lítur til baka segir hún að almennur ótti hafi verið í þjóðfélaginu á þessum tíma. „Það er mjög skrýtið að svona árás skuli ekki vera tekin mjög föstum tökum og alvarlega. Mér fannst mjög merkilegt að það var stór samkoma hér nokkrum árum síðar þar sem var verið að mótmæla sýruárásum í fjarlægum löndum, en það skyldi enginn mótmæla þegar slík árás var gerð hér.“

Rannveig segist hafa glímt við ansi margar árásir í gegnum árin en sýruárásin hafi verið sú svæsnasta. „Þetta var mjög óvænt og mikið högg. Það var gasalegt að eiga við þetta eftir á, gagnvart fjölskyldunni, vinum og nágrönnum.“

Áfallið sem Rannveig upplifði tengdist einnig viðbrögðunum, eða skorti á þeim, eftir árásina. „Þetta var mikið áfall og áfall að sjá að það var enginn sem stóð upp og stöðvaði þetta eða gerði aðgerðir í að finna út hvernig þetta gat gerst og tók á því. Það fannst mér líka vera talsvert áfall.“

Rannveig telur að mikilvægt sé að þjóðfélagið sammælist um að árásir líkt og hún varð fyrir verði ekki liðnar. „Við sem þjóðfélag ættum að reyna að sameinast um það að það er ekki í lagi að beita árásum eða sýru, eða að fara heim til fólks. Það ætti að vera grundvallarsamkomulag í þjóðfélaginu að svona ætti ekki að vera liðið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert