Ótrúlegur fjársvikafarsi í héraðsdómi

Aðalmeðferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær. mbl.is/Ófeigur

Aðalmeðferð í máli fjögurra einstaklinga, þriggja karlmanna og einnar konu, sem ákærð eru fyrir peningaþvætti, fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Málið er umfangsmikið og teygir anga sína meðal annars til Suður-Kóreu, Hong Kong og Ítalíu. Þrír sakborninganna eru Íslendingar en sá fjórði er nígerískur. Heildarupphæðin sem til rannsóknar var í málinu nam rúmum fimmtíu milljónum króna sem sendar voru hingað til lands í tveimur millifærslum, sú fyrri upp á rúmar 30 milljónir og síðari upp rúmar 20 milljónir.

Ótilgreindur aðili komst yfir peningana með fjársvikum í tengslum við viðskipti félaganna Daesung Food One Co Ltd í Suður Kóreu og Nesfisks hf. Fyrir dómi kom fram að einhver óviðkomandi hefði komist inn í tölvupóstsamskipti á milli fyrirtækjanna og jafnframt yfir bankaupplýsingar. Því hefðu greiðslur fyrir ákveðnar vörur endað á reikningi óviðkomandi aðila. Málið komst upp í kjölfar ábendingar fjármálafyrirtækis um óeðlilega millifærslu.

Einn ákærðu í málinu, Gunnar Rúnar Gunnarsson, er með langan sakaferil á bakinu og hefur meðal annars hlotið dóma fyrir kynferðisbrot og fjársvik.

Óhætt er að segja að málið sé farsakennt og bar það þess merki við aðalmeðferðina í gær. Tóninn í farsanum var í raun sleginn þegar rafmagnið fór af skömmu áður en þinghald hófst. Uppi varð fótur og fit og dágóðan tíma tók að koma tölvukerfi héraðsdóms aftur í gang eftir rafmagnsleysið. 

Peningar voru millifærðir inn á reikning fyrirtækis í eigu Gunnars ...
Peningar voru millifærðir inn á reikning fyrirtækis í eigu Gunnars Rúnars. AFP

Vitnisburðir sakborninga í málinu stangast að miklu leyti á, benda þau hvert á annað og ekkert þeirra kannast við að hafa skipulagt málið. Öll vísa þau þó á mann að nafni Sly sem sagður er búsettur á Ítalíu. í ákæru er Nígeríumanninum engu að síður gefið að sök að hafa skipulagt og gefið meðákærðu fyrirmæli um peningaþvætti eftir að hann kom til landsins þann 2. febrúar 2016. Þar segir að brotin hafi veri framin að hans undirlagi. „Kom hann til landsins gagngert til að sjá til þess að umræddir fjármunir yrðu sendir tilteknum erlendum aðilum,“ segir í ákærunni.

Maðurinn var handtekinn á Ítalíu snemma á þessu ári og var framseldur hingað til lands í ágúst síðastliðnum, en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni frá því 17. ágúst. Fyrir dómi í sagðist maðurinn aðeins hafa verið að aðstoða vin sinn vegna viðskipta sem hann stóð í, en hann hafi aldrei talið að hann væri þátttakandi í ólögmætu athæfi.

Tveimur ákærðu í málinu, Gunnari Rúnari og fimmtugri konu, er gefið að sök að hafa tekið við fjármununum frá ótilgreindum aðila, en peningarnir voru lagðir inn á íslenskan bankareikning í nafni fyrirtækis mannsins. Þriðji Íslendingurinn, karlmaður á fimmtugsaldri, virðist hafa komið til sögunnar þegar flytja átti peningana aftur úr landi, en hluti peninganna var lagður inn á bankareikning hans áður en þeir voru lagðir inn á reikning félags í Hong Kong. Íslendingarnir bera allir fyrir sig að þeir hafi blandast inn í málið vegna einfeldni sinnar og jafnvel greiðvikni, en ítrekað kom fram að Gunnar Rúnar sem upphaflega tók við peningunum, væri greindarskertur. Hann skildi ekki ensku og hefði mjög takmarkaða tölvukunnáttu.

„Þetta var allt löglegt“

Konan sem ákærð er í málinu gaf fyrst skýrslu fyrir dómi. Hafði hún áður setið úti sal með útkrotaða stílabók í höndum. Spurð af saksóknara hvernig það hafi komið til að hún tók á móti fjármununum sagði hún að maður að nafni Sly sem búsettur er á Ítalíu, hefði haft samband við hana og spurt hún þekkti einhvern sem gæti aðstoðað við að stofna fyrirtæki og fjárfesta hér á landi. Sagðist Sly vera að leita leiða fyrir auðjöfur sem hann þekkti til að fjárfesta, en sá vildi stofna fyrirtæki hér á landi sem myndi sérhæfa sig í útflutningi á þorskhausum. Hann vantaði aðstoð við að stofna bankareikning og útvega húsnæði. „Þetta var allt löglegt,“ sagði konan fyrir dómi. Hún sagði Sly vera vin fyrrverandi tengdasonar síns. Aðrir sakborningar sögðu hins vegar fyrir dómi að konan hefði sagt Sly vera fyrrverandi kærasta sinn.

Konan sagðist hvorki hafa haft kunnáttu né tíma til að aðstoða við fjárfestingar og þegar hún hitti Gunnar Rúnar sagði hún honum frá þessum manni sem þurfti aðstoð við að stofna fyrirtæki hér á landi. Sagði hún að í kjölfarið hefði símafundi verið komið á við Sly og meintan auðjöfur heima hjá Gunnari Rúnari. Konan sagðist aðeins hafa ætlað sér að kynna þessa aðila og koma á sambandi milli þeirra. Það hafi átt að vera hennar eina aðkoma að málinu. Hún hafi hins vegar flækst inn í málið og lent í því að túlka og aðstoða Gunnar Rúnar vegna þess hve illa hann skildi og talaði ensku. Þá sagðist hún einnig hafa lánað honum peninga, meðal annars fyrir hótelherbergi Nígeríumannsins, og aðstoðað hann við ýmislegt.

Aðspurð sagðist konan ekki hafa þekkt sakaferil hans að öllu leyti og spurð hvort Gunnar Rúnar hefði komið fyrir sem maður sem ætti í alþjóðlegum viðskiptum, vísaði hún til þess að hann hefði átt fyrirtæki. Meira vissi hún ekki. Konan sagði jafnframt að Gunnar Rúnar hefði sagst ætla að lýsa sig greindarskertan til að vera ekki sakhæfur í málinu.

Höfðu ekki kunnáttu til að millifæra peninga 

Eftir símafundinn með Sly og meintum auðjöfri voru peningarnir lagðir inn á reikning fyrirtækis í eigu Gunnars Rúnars. Ekkert var hinsvegar úr fjárfestingum og ekki var fiskútflutningsfyrirtæki stofnað, enda voru peningarnir fluttir úr landi skömmu síðar.

„Mér fannst það skrýtið því ég hélt að það ætti að fjárfesta í einhverju, og fékk gögn um að þetta væri svona eins og ég segi. Ég spyr hvort þeir ætli að flytja peningana úr landi. Þá segja þeir að það sé ekki hægt að flytja þorskhausa frá Íslandi til Nígeríu. Ég veit ekki hvort það er raunverulegt eða hvað. Þetta var það sem hann sagði,“ sagði konan um hvort henni hefði ekki þótt skrýtið að flytja ætti peningana strax úr landi þegar til hafi staðið að fjárfesta hér. Sagði hún Sly hafa gefið sér þessar upplýsingar.

Heildarupphæðin sem til rannsóknar var í málinu nam rúmum 50 ...
Heildarupphæðin sem til rannsóknar var í málinu nam rúmum 50 milljónum króna. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar kom svo að því að flytja peningana aftur úr landi komu upp vandkvæði að sögn konunnar, en Gunnar Rúnar sagðist ekki treysta sér að millifæra þá sjálfur. Hún sagðist því hafa farið með honum í bankann og spurt út í gjaldeyrishöft og lög um peningaflutninga úr landi. Í bankanum fengust þær upplýsingar að reikningar þyrftu að vera fyrir öllum viðskiptum, eitthvað sem þau höfðu ekki í höndunum.

Hún sagði Gunnar Rúnar hafa náð að redda reikningum síðar sama dag og ítrekaði að hún hafi talið þetta allt vera löglegt. Það vantaði hins vegar enn eitthvað upp á svo hægt væri að flytja peningana úr landi.

Um kvöldið kom annar íslenskur maður á fimmtugsaldri til sögunnar, en konan sagði hann í kjölfarið hafa að miklu leyti tekið við sem túlkur fyrir hina erlendu aðila sem að málinu komu. Átti þessi íslenski maður að aðstoða við að millifæra peningana úr landi og voru fjármunirnir kjölfarið lagðir inn á reikning hans.

Hann var „allur í gulli og vel klæddur“

Um svipað leyti kom hingað til lands Nígeríumaður sem sagður var bróðir hins meinta auðjöfurs og átti hann að fylgjast með því að allt færi rétt fram varðandi millifærslurnar.

Konan sagðist ekki hafa verið miklu sambandi við Nígeríumanninn, en hún hafi þó verið hálfgerð „hlaupakerling“ fyrir hann, keyrði í banka, á veitingastaði og í verslanir. Sjálfur sagði hann fyrir dómi að hann hefði verið sendur hingað til lands til að fá staðfestingu á millfærslu á peningunum og að hann hefði verið í mestum samskiptum við konuna hér á landi,

Konan sagði sagði manninn hafa komið vel fyrir, hann hafi verið „allur í gulli og vel klæddur.“ Hún keypti það að hann væri maður sem væri vanur að stunda viðskipti.

Þegar tekist hafði að senda peningana úr landi kom í ljós að eitthvað vantaði á upphæðina, en þeir aðilar sem að málinu koma virðast allir hafa talið að þeir ættu að fá einhverja þóknun fyrir sína aðkomu. Gunnar Rúnar tók rúmar sex milljónir króna út af reikningum og notaði hluta peninganna til eigin þarfa, meðal annars til að kaupa sér jeppa. Konan sagði sinn hlut þó aðeins hafa verið endurgreiðsla á peningum sem hún hafði áður lánað Sly.

Konan sagði Nígeríumanninn hafa verið reiðan út af peningunum sem upp á vantaði þegar hún keyrði hann út á flugvöll og hann hefði haft í hótunum við sig áður en hann hélt af landi brott. Hann hefði sagt að þau skyldu passa sig, hann myndi koma aftur til landsins með menn með sér.

Hún sagði Sly einnig hafa hringt og sagst vera með eigendur peningana berjandi á hurðina hjá sér. Hann teldi að íslensku karlmennirnir tveir hefðu stolið peningunum.

„Ég er bara venjuleg mamma“ 

Konan sagði að sér hefði verið farið að líða mjög illa á þessum tímapunkti. Hún upplifði sig flækta í eitthvað sem hún ætlaði sér aldrei að taka þátt í.

Hún sagði Sly hafa hótað sér og fjölskyldu sinni öllu illu, en hún hafi verið sérlega viðkvæm fyrir hótunum sem þessum vegna atburða sem hún hefði lent í. Dóttir hennar hefði verið gift manni frá Nígeríu, vini Sly, sem hefði beitt hana ofbeldi. Þegar þau skildu hefði maðurinn ofsótt dótturina sem bjó á heimili hennar. Lögregla hefði ótal sinnum þurft að fjarlægja hann frá heimili þeirra og eftir níu mánuði af ofsóknum hafi maðurinn verið handtekinn og hann vistaður um tíma á geðdeild.

Hún sagði það hafa verið ástæðu þess að hún hafi ákveðið að aðstoða við að millifæra frekari fjármuni úr landi. Þær millufærslur hafi hins vegar ekki tekist. „Ég var búin á því andlega og líkamlega og grét út í eitt,“ sagði hún um ástand sitt. Hún sagðist hafa verið hrædd við að vera ákærð fyrir eitthvað sem hún gerði ekki, en hún gangist hins vegar við því sem hún gerði. „Ég er bara venjuleg mamma,“ sagði konan sem vildi meina að hún hefði fengið taugaáfall þegar hún var í gæsluvarðhaldi.

Þá tók konan fram að hún hefði viljað fara út til Ítalíu og búa til gildru fyrir Sly í þeim tilgangi að sannleikurinn kæmi í ljós. Lögregla hefði hins vegar talið það of hættulegt.

Átti að lána bankareikning gegn greiðslu

Næst gaf Gunnar Rúnar skýrslu fyrir dómi og sagðist hann hafa haft sáralitla aðkomu að málinu. Faðir hans sat í salnum og fylgdist með. Hann yfirgaf hins vegar salinn um leið og sonurinn hafði gefið sína skýrslu.

Spurður hvernig það kom til að fjármunirnir hefðu endað inni á reikningi fyrirtækis í hans í eigu sagði Gunnar Rúnar konuna hafa komið til sín og beðið sig um að lána sér reikning, en hann hefði haft nokkra slíka til taks. Átti hann að fá ákveðinn hlut af peningunum fyrir að lánið á reikningum. Sagðist hann í þeim tilgangi hafa tekið út rúmar sex milljónir króna af fjármununum út af reikningi sínum, en það hefði verið að beiðni konunnar, Nígeríumannsins og „þeirra úti“ eins og hann orðaði það. Hann tók 3,2 milljónir af þeirri upphæð sem hann segir honum hafa verið lofað.

Gunnar Rúnar staðfesti að símafundur hefði verið haldinn heima hjá móður hans þar sem konan hefði talað við Sly og meintan auðjöfur. Hann þvertók hins vegar fyrir að tilgangurinn hefði verið að tengja hann við mennina, enda hefði hann ekki burði til að vera í samskiptum við erlenda aðila þar sem hann talaði ekki ensku.

Spurður hvað hann viss um Sly sagði Gunnar Rúnar konuna hafa sagt hann vera sinn fyrrverandi og að hann ætti fasteignir um allan heim. Sagði hann konuna hafa gefið Sly upplýsingar um bankareikning fyrirtækis síns og að hann vissi ekki hvaðan peningarnir komu. Hann sagði konuna hafa sagt að peningarnir væru fyrir kaupum á fyrirtækinu hans.

Gunnar Rúnar sagðist hins vegar hafa vitað það allan tímann að það væru engin viðskipti þarna að baki.

Upplifði að verið að væri að nota hann

Gunnar Rúnar sagðist hafa komið á sambandi milli konunnar og hins Íslendingsins, sem er æskuvinur hans, þar sem þau höfðu hvorugt getu né þekkingu á því hvernig flytja átti peningana úr landi.

Sagðist hann jafnframt hafa keyrt konuna út á flugvöll að sækja Nígeríumanninn, sem átti að fylgjast með því að peningarnir færu rétta leið. Gunnar Rúnar sagði konuna hafa verið í mestum samskiptum við manninn. Hann þvertók fyrir að hafa borgað hótelherbergi fyrir Nígeríumanninn, líkt og konan hélt fram. Þá hefði hann aldrei látið manninn hafa neina peninga.

Öll vísa sakborningarnir til manns að nafni Sly sem búsettur ...
Öll vísa sakborningarnir til manns að nafni Sly sem búsettur er á Ítalíu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hann sagðist aldrei hafa reynt að leyna því að félagið sem notað var til að taka á móti peningunum væri í hans eigu og taldi fyrstu að hann væri ekki að fremja refsivert athæfi. Honum hefði engu að síður brugðið þegar peningarnir komu inn á reikninginn, enda hefði upphæfði verið mun hærri en hann átti von á. Þegar síðari millifærslan kom fóru hins vegar að renna á hann tvær grímur og fór hann að gruna að um illa fengið fæ færi að ræða. Hann sagðist hafa upplifað að verið væri að nota hann, enda hefði hann ekki vitsmuni til að standa í svona.

Taldi peningana koma frá ávaxtafyrirtæki í Suður-Kóreu 

Næst gaf skýrslu hinn Íslendingurinn sem sagðist hafa flækst inn í málið eftir að hafa fengið símtal frá vini sínum sem sagðist vera í viðskiptum við fólk sem ætti mikla peninga á Íslandi, en ætti í erfiðleikum með koma þeim úr landi. Vinurinn er Gunnar Rúnar. Sagðist maðurinn hafa fengið þær upplýsingar að peningarnir kæmu frá ávaxtafyrirtæki í Suður-Kóreu.

Fór það svo að peningarnir voru millifærðir af reikningi fyrirtækis Gunnars Rúnars inn á hans persónulega bankareikning áður en þeir voru fluttir úr landi. Sagðist maðurinn ekki hafa ætlað að skipta sér af þessu en ráðfærði sig við lögmann sinn sem sagði það löglegt að millifæra peninga með þessum hætti. „Ég gerði aldrei annað en að millifæra þessa peninga,“ fullyrti maðurinn fyrir dómi.

Aðstoðaði gamlan við einfeldni 

Sagðist hann upphaflega ekki hafa átt að fá greiðslur fyrir viðvikið, en á þriðja degi hefði þetta verið „orðið andlegt ofbeldi og ekki eins og um var rætt.“ Sagðist hann því ekki ætla að standa í þessu nema að fá eitthvað greitt fyrir. Þá var ákveðið að hann fengi 5.000 dollara fyrir sinn hlut í málinu. Sagði hann Nígeríumanninn hafa staðfest það við sig.

Maðurinn sagði að það væri ljóst að Gunnar Rúnar hefði verið undir miklu álagi og pressu frá þeim sem þóttust eiga féð. Málið hefði allan tímann einkennst af mikilli pressu. „Ég sá að hann var kominn í einhver vandræði sem hann gat ekki komið sér úr,“sagði maðurinn. Hann tók fram að hann þekkti sakaferil Gunnars Rúnars en þeir væru æskuvinir og að hann væri einn af fáum sem ekki hefði snúið baki við honum. Hann færi ekki í manngreiningarálit og hefði tekið Gunnar Rúnar undir sinn verndarvæng. Hann hefði meðal annars aðstoðað fjölskyldu hans þegar hann sat í fangelsi.

Sagðist maðurinn í einfeldni sinni hafa viljað aðstoða gamlan vin, en þar sem hann vildi ekki blanda sér inn í hans fyrirtækjarekstur hefði hann látið flytja fjármunina yfir á sinn persónulega reikning. Hann hefði aldrei reynt að fara leynt með það.

Saksóknarinn virtist ekki alveg sannfærður. „Í samskiptum við Gunnar Rúnar ert þú varla einfeldningurinn?“ spurði hann. Maðurinn neitaði því og benti á að ljóst væri að Gunnar Rúnar glímdi við ýmsa erfiðleika. Hann hefði engu að síður viljað hjálpa honum.

Sagði konuna áður hafa svikið fé út úr vini sínum

Maðurinn sagðist ekki hafa haft vitneskju um að illa fengið fé væri að ræða, en að það hafi farið að renna á hann tvær grímur á milli greiðslna þegar hann frétti hjá vini sínum að konan hefði áður flutt peninga úr landi og skipt þeim í gjaldeyri. Þá fullyrti vinur hans að hann hefði nokkrum árum áður látið sömu konu fá sex til átta milljónir króna sem hann hefði aldrei fengið til baka. „Ég þekkti þessa konu þetta ekki neitt, en mér fannst hún alltaf vera einhver stresshrúga,“ sagði hann um upplifun sína af konunni.

Aðspurður hvers vegna hann hefði þá aðstoðað við að koma síðari greiðslunni úr landi sagðist hann ekki hafa viljað taka þá áhættu að hinir aðilar málsins eyddu peningunum í einhverja vitleysu. Honum hefði verið hótað og vildi því sjálfur koma peningunum í réttar hendur.

Þá sagðist maðurinn hafa reynt að lokka Nígeríumanninn aftur til Íslands með skilaboðum í gegnum smáforritið Snapchat, og hann hefði rætt það við héraðssaksóknara.

Ekki óaðlaðandi tilboð að fara til Íslands

Nígeríumaðurinn var síðastur sakborninganna til að gefa skýrslu. Hann sagðist aðeins verið að aðstoða félaga sinn, Sly, sem sjálfur hefði viljað fara til Íslands, en þar sem dvalarleyfi hans á Ítalíu var í vinnslu gat hann það ekki. Aðspurður hvað Sly starfaði við sagði maðurinn hann hafa verið í viðskiptum í Nígeríu og starfaði einnig sem lífvörður.

Maðurinn sagði Sly hafa sagst vera í viðskiptum á Íslandi við konu og félaga hennar. Hann sagðist hafa sent peninga til Íslands en síðan hefði hann skipt um skoðun og að hann vildi að hluti peninganna færi til Hong Kong. Hann sagði jafnframt að konan svaraði honum ekki alltaf. Hann bauðst því til að greiða farseðill mannsins til Íslands og láta hann hafa 500 evrur. Hann fengi einnig gistingu á heimili konunnar í tvær nætur. „Ég þyrfti einungis að sjá staðfestingu fyrir móttöku peninganna. Frá mínum bæjardyrum séð var þetta ekki óaðalaðandi tilboðið. Hann sagði allt skipulagt og að konan myndi sækja mig á flugvöllinn,“ sagði maðurinn sem gaf skýrslu með aðstoð túlks.

Aðspurður sagði hann að sér hafi ekki þótt skrýtið að vera beðinn um þetta. Enda hefði hann sjálfur haft hug á að fara til Íslands. Hann sagði það hins vegar hafa komið sér á óvart að hann hafi átt eitthvað með peningana að gera, en hann hafi aldrei verið beðinn um að setja pressu á Íslendingana.

„Ég ræddi ekki við Sly í smáatriðum um hvers konar viðskipti var að ræða, en ég vissi að hann ætti í einhverjum viðskiptum. Það stóð aldrei til að ég væri hér lengur en í tvo daga. Ég sá þetta sem gott tækifæri til að komast til Íslands, ég hafði heyrt um landið.“

Vildi fara heim þegar málið dróst á langinn

Maðurinn sagði konuna hafa sótt sig á flugvöllinn en að áætlanir um hann skyldi gista heima hjá henni hefðu breyst því hún átti von á fjölskyldunni í heimsókn. Konan hafa hefði því ekið honum á hótel og hún greitt fyrir tveggja nátta dvöl. Um kvöldið hitti hann Gunnar Rúnar og konuna sem tjáðu honum að peningarnir væru inni á reikningum hans. Þeir yrðu millifærðir daginn eftir.

Maðurinn sagðist hafa verið í mestu sambandi við konuna af Íslendingunum þremur og í hvert skipti sem Sly reyndi að hringja í hana og hún svaraði ekki var hann beðinn um að tala við hana. Þá hefði konan þrisvar látið hann hafa peninga

Á öðrum degi dvalarinnar, þegar í ljós kom að erfiðlega gekk að millifæra peningana, segist maðurinn hafa talað við Sly og sagst vilja fara aftur til Ítalíu. Þá kom hins vegar annar íslenskur karlmaður til sögunnar og aðstoðaði við að millifæra peningana og var það gert á heimili hans.

„Hvernig átti ég að geta gefið þeim fyrirmæli?

Aðspurður sagðist maðurinn aldrei hafa hótað neinum. Þau fjögur hafi öll verið vinir meðan á dvöl hans hér á landi stóð. Það hefðu engin vandamál eða ágreining hafa komið upp í þeirra samskiptum. Maðurinn kannaðist heldur ekki við að hafa samið um að einn Íslendinganna fengi 5.000 dollara greiðslu fyrir sinn hlut.

Hann ítrekaði að hann hefði ekki vitað að um ólöglegt athæfi verið að ræða og þvertók fyrir að hafa gefið fólkinu fyrirmæli. „Málið er í sjálfu sér einfalt, meðákærðu þekkja kerfið á Íslandi, hvernig átti ég að geta gefið þeim fyrirmæli?“

Meðal þeirra sem kallaðir voru til vitnis í málinu í gær voru ættingjar sakborninga, sem langflestir báru tengsl fyrir sig til að sleppa við að gefa skýrslu. Enn eiga þó vitni eftir að gefa skýrslu í málinu, þar á meðal lögmaðurinn sem sagði öðrum íslenska karlmanninum að ekki væri ólöglegt að millifæra peninga með þeim hætti sem gert var. Mun því aðalmeðferð halda áfram á mánudag, ásamt munnlegum málflutningi. Fyrir liggur að málið er ansi snúið, enda framburðir sakborninganna hver öðrum ólíkari. Gögn í málinu spanna yfir 3.000 blaðsíður sem lögmennir hafa þurft að kynna sér í þaula.

mbl.is

Innlent »

Skynsamlegra að RÚV sé á fjárlögum

08:48 Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að það sé ef til vill skynsamlegt að leggja niður útvarpsgjaldið og setja starfsemi RÚV alfarið á fjárlög. Honum líst vel á að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði, en segir það aðra umræðu hvort „bæta“ þurfi ríkisfyrirtækinu tekjutapið. Meira »

Leituðu að vopnuðum manni

07:32 Fjölmennt lögreglulið leitaði að vopnuðum manni í Breiðholti í gærkvöldi og í nótt, en um kl. 23 í gærkvöldi barst lögregluni tilkynning um að maður væri á ferð í hverfinu með haglabyssu. Meira »

Eldur eftir flugeldasýningu í Hveragerði

07:24 Talsverður eldur kviknaði í gróðri í Hveragerði laust fyrir kl. 23 í gærkvöldi, við skotpall flugeldasýningar sem þar var haldin í tilefni bæjarhátíðar. Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri birti myndskeið af slökkvistarfinu. Meira »

Hyggst kæra ólögmæta handtöku

Í gær, 22:32 „Ég er hissa á lygunum sem lögreglan lætur frá sér og mér finnst mjög sárt að vera handtekinn fyrir það hver ég er en ekki fyrir eitthvað sem ég gerði. Ég hélt að slík vinnubrögð liðust ekki,“ segir Elínborg Harpa Önundardóttir, sem var handtekin fyrir meint mótmæli í miðri Gleðigöngunni fyrr í dag. Meira »

Leit með sónar skilaði ekki árangri

Í gær, 20:49 Leitin að belgíska ferðamanninum sem talin er hafa fallið ofan í Þingvallavatn hélt áfram í dag með köfurum, þyrlu og sónartækjum sem skönnuðu botninn þar sem það var hægt. Þetta segir Gunnar Ingi Friðriksson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita. Meira »

Ríkisstjórnin styrkir Reykjavíkurleikana

Í gær, 20:45 Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær að veita fjögurra milljóna króna styrk af ráðstöfunarfé sínu til Reykjavíkurleikanna sem haldnir verða árið 2020, en Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur ásamt sérsamböndum innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Reykjavíkurborg haldið Reykjavíkurleikana frá árinu 2008. Meira »

Bílstjóri Dr Strangelove

Í gær, 20:40 Á sjöunda áratugnum starfaði listamaðurinn Jón Valgeir Stefánsson sem bílstjóri í Berkeley, en meðal farþega hans var eðlisfræðingurinn Edward Teller, sem er að mörgum talinn faðir vetnissprengjunnar. Teller er fyrirmynd kvikmyndapersónunnar Dr Strangelove í samnefndri mynd Stanley Kubrick. Meira »

Vekur athygli á ofbeldi gegn börnum

Í gær, 20:20 Einar Hansberg Árnason lagði í gær af stað í hringferð til að styðja átak UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum. Á einni viku, eða til 24. ágúst ætlar hann að stoppa í 36 sveitarfélögum og róa, skíða eða hjóla í sérstökum þrektækjum 13.000 metra á hverjum stað, einn metra fyrir hvert barn sem brotið er á. Meira »

Enginn hlaut 100 milljónirnar

Í gær, 19:38 Fyrsti vinningur lottósins gekk ekki út í kvöld en hann hljóðaði upp á rúmlega eitt hundrað milljónir króna. Fyrsti vinnungur verður því áttfaldur eftir viku. Meira »

150 milljónirnar „ótrúlegt bruðl“

Í gær, 18:52 „Það slær mann sem ótrúlegt bruðl,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Ríkisútvarpið spurður um 150 milljóna króna starfslokasamning Arion banka við Höskuld Ólafsson, fyrrverandi bankastjóra bankans. Meira »

Metfjöldi á Ísdegi Kjörís í Hveragerði

Í gær, 18:37 „Þetta hefur gengið rosalega vel, alveg meiriháttar. Ég held við höfum sjaldan verið með jafn marga gesti og í dag,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís, í samtali við mbl.is um Ísdag Kjöríss sem haldin var í dag samhliða bæjarhátíðinni Blómstrandi dagar í Hveragerði. Lúsmísinn kom vel út. Meira »

Tekur ekki bara fallegar myndir

Í gær, 18:00 Chris Burkard, ljósmyndari og ævintýramaður, ferðast til allra heimshorna til að taka ótrúlegar landslagsmyndir sem og myndir af fólki við krefjandi aðstæður. Hann nýtur gífurlegra vinsælda, heldur úti instagram reikningi með milljónum fylgenda og hefur unnið fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heims. Meira »

Best að dæma ekki bókina af leðurkápunni

Í gær, 17:02 Hatari lét sitt ekki eftir liggja og var óvenju glaður í bragði þegar mbl.is rakst á sveitina í Gleðigöngunni. Þeir fagna fjölbreytileikanum í miðbænum í dag, enda samræmist það hugmyndafræðinni. Meira »

Vilja meira en bara þorsk og ýsu

Í gær, 16:50 Íslenskir neytendur eru orðnir opnari fyrir því að kaupa og matreiða fisktegundir sem áður sáust varla í eldhúsum landsmanna. Dýrari fiskurinn selst betur eftir því sem dregur nær helginni. Meira »

Var að mótmæla þátttöku lögreglunnar

Í gær, 16:49 Kona sem var tekin höndum og færð inn í lögreglubíl í miðbæ Reykjavíkur í dag í miðri Gleðigöngu var að mótmæla þátttöku lögreglunnar í Gleðigöngunnar. Hún er hluti af róttækum samtökum hinsegin fólks. Meira »

Laun ríkisforstjóra hækkað um fjórðung

Í gær, 16:42 Laun forstjóra hjá ríkisstofnunum hafa hækkað um nánast fjórðung síðan ákvarðanir um laun þeirra voru færðar frá kjararáði til stjórna þeirra stofnana sem forstjórarnir stjórna fyrir tæpum tveimur árum. Laun forstjóra Landbankans hafa hækkað um rúmlega 1,7 milljónir síðan í júní 2017. Meira »

Verðið oftast lægst hjá A4

Í gær, 16:20 Verð á notuðum námsbókum fyrir framhaldsskólanema voru oftast lægst í A4 samkvæmt nýrri könnun verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands sem framkvæmd var 15. ágúst. Meira »

Dagur í skýjunum með daginn

Í gær, 15:55 Dagur B. borgarstjóri er hinn ánægðasti með Gleðigönguna í ár, þá fjölmennustu hingað til. Fjörið er að ná hámarki í Hljómskálagarðinum og á vafalaust eftir að standa fram á regnbogalitaða nótt. Meira »

Mótmælti Gleðigöngu og var handtekin

Í gær, 15:30 Íslensk kona var handtekin í Gleðigöngu Hinsegin daga sem fer nú fram í miðborg Reykjavíkur. Í samtali við mbl.is segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn að konan hefði verið að mótmæla gleðigöngunni, ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu og hefði því verið handtekin. Meira »