Hér um bil skotinn í tvennt

Magnús Ágústsson.
Magnús Ágústsson. mbl.is/RAX

Hann var að ganga til kinda suður á Bieringstanga á Vatnsleysuströnd, stálpaður unglingur, þegar hann sá flugvél koma yfir býlið sitt, Halakot, lækka flugið og taka stefnuna beint á sig. Vélin nálgaðist hratt og hann sá ekki annan kost í stöðunni en að henda sér flötum á klöppinni, annars hefði vélin mögulega feykt honum um koll. Þá byrjuðu vélbyssurnar að gelta og kúlurnar komu niður í tveggja til þriggja metra fjarlægð frá honum. Klöppin hreinlega logaði. Að því búnu hækkaði vélin flugið á ný og hvarf til lendingar í Keflavík.

Meira en 75 ár eru liðin frá þessum ótrúlega atburði en Magnús Ágústsson veit enn ekki hvað henni gekk til, áhöfn bresku orrustuflugvélarinnar, þennan góðviðrisdag í seinni heimsstyrjöldinni, og fær svarið eflaust ekki úr þessu.

„Ég veit ekki hvort þeir ætluðu að hræða mig eða drepa, hvort þetta var leikur eða alvara. Ég sé þetta enn í huga mér, eldrákina á klöppinni,“ rifjar Magnús upp, öllum þessum árum síðar. „Hitt veit ég þó að hefði rákin farið eftir mér hefði ég farið í tvennt. Þetta hef ég komist næst því að verða tveir!“

Magnús, sem orðinn er 95 ára, horfir stoltur um öxl – yfir lífshlaupið. „Ég hef lifað viðburðaríku og miklu lífi. Það hafa orðið ótrúlegar breytingar á íslensku samfélagi og heiminum öllum. Svo miklar raunar að maður finnur helst ekkert sem til er í dag sem þótti sjálfsagt þegar ég var ungur.“ 

Hann hefur alla tíð búið á Vatnsleysuströnd og fyrr á þessu ári var hann gerður að heiðursborgara í sveitarfélaginu Vogum, ásamt fermingarsystur sinni, Guðrúnu Lovísu Magnúsdóttur. Þau eru jafnframt elstu íbúar sveitarfélagsins. Vegtylluna hlaut Magnús fyrir framlag sitt til atvinnuuppbyggingar, þátttöku í sveitarstjórn sem og fyrir framlag sitt til mannlífs og menningar. Þess má geta að Magnús er einnig heiðursfélagi Laugardalsættarinnar. 

Búandi að ríkum samanburði er Magnús um margt heillaður af því sem hann sér úti í samfélaginu árið 2017. „Það er stórkostlega gaman að búa á Íslandi í dag, ef við kunnum að meta það, ekki síst fyrir unga fólkið. Nú á tímum geta allir notið menntunar. Ég var ekki nema fjögur ár í skóla, annað var ekki í boði, en í dag fara börn nýfædd í leikskóla. Og ekki eru tækifærin síðri þegar kemur að því að velja sér vinnu. Fyrir þetta eigum við að vera þakklát.“

Honum þykir undarlegt þegar talað er um fátækt í samtímanum. „Ég vil svo sem ekki gera lítið úr því en fátækt á Íslandi í dag er ekki sama og fátækt þegar ég var að vaxa úr grasi. Við eigum að lofa Guð hátt og í hljóði fyrir að búa í þessu góða og hreina landi. Hér er nóg af vinnu og heilbrigðiskerfið er gott.“

Það hefur Magnús reynt á eigin skinni. „Ég hef verið að glíma við krabbamein í andliti í rúman áratug og hef ekkert nema afskaplega gott um íslenska heilbrigðiskerfið að segja. Ég hef verið hjá Hannesi Hjartarsyni lækni og notið feikilega góðrar þjónustu. Við gleymum því stundum að þetta er ekki sjálfgefið.“

Nánar er rætt við Magnús í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert