Miklir tungumálaperrar

Úlfur Úlfur: Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson.
Úlfur Úlfur: Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson. Kristinn Magnússon

Þegar Edda útgáfa hafði samband við félagana í hinni vinsælu rappsveit Úlfur Úlfur, Helga Sæmund Guðmundsson og Arnar Frey Frostason, og bað þá að koma að rappkeppninni Syrpu Rappi þurftu þeir ekki að hugsa sig um tvisvar. „Við höfum verið lengi í rappinu og fyrir vikið í góðri aðstöðu til að miðla af reynslu okkar. Síðan erum við báðir grjótharðir Andrésar Andar-menn. Það spillti ekki fyrir,“ segir Helgi Sæmundur léttur í bragði en þess má geta að Arnar Freyr er með Andrésar-húðflúr á handleggnum. Fyrir þá sem ekki vita þá gefur Edda út hinar ódauðlegu bókmenntir um Andrés karlinn Önd og hina litríku félaga hans hér í fásinninu.

Hlutverk Úlfanna tveggja verður að hjálpa til við að velja bestu textana og semja síðan lag með sigurvegaranum í Stúdíó Sýrlandi. Einnig verður gert myndband við lagið. Syrpu Rapp er fyrir krakka á aldrinum sjö til tólf ára sem langar að spreyta sig á rappi og textagerð. Textinn þarf að vera á íslensku og til þess að vera með þarf að hlaða slóð inn á YouTube og senda slóðina á upptökuna ásamt textanum á edda@edda.is fyrir 17. desember næstkomandi. Keppendur mega rappa einir og sér eða í félagi við aðra.

Helgi Sæmundur veit til þess að þátttaka hafi farið vel af stað og hvetur alla sem hafa áhuga að missa ekki af skilafrestinum. „Við erum mjög spenntir að sjá hvað kemur út úr þessu og hlökkum til að vinna með sigurvegaranum. Við eigum eftir að gera eitthvað skemmtilegt saman!“

Hinn 27. desember verða upptökur af tíu bestu textunum birtar á andresond.is og gefst almenningi í framhaldinu tækifæri til að kjósa sitt uppáhald. Sigurvegari verður svo krýndur með pomp og prakt 6. janúar 2018.

Helga Sæmundi þykir Syrpu Rapp frábært framtak. Keppnin skapi ekki aðeins tækifæri, heldur ýti jafnframt undir áhuga. „Hún er mjög falleg, þessi keppni, og skiptir svo sannarlega miklu máli. Jafnvel þótt hún sé fyrir unga krakka þá eru margir komnir með mikla hæfileika strax á þessum aldri, sjáðu bara Góða Úlfinn. Er hann ekki níu ára? Alla jafna er enginn vettvangur fyrir svona unga krakka og þess vegna fagna ég þessari keppni. Það er ekki til lítils að vinna að fá að fara í stúdíó og búa til lag. Ég hefði pottþétt skráð mig hefði svona keppni verið til þegar ég var tíu eða tólf ára,“ segir hann en það var einmitt á þeim aldri sem Helgi Sæmundur og Arnar Freyr byrjuðu að rappa og skrifa texta heima á Sauðárkróki.

Fátt er fallegra en íslenskan

Ekki þykir honum síðra að textarnir verði að vera á íslensku. „Við Arnar erum miklir tungumálaperrar og fátt er fallegra, hvort sem er á prenti eða í eyra, en góð íslenska. Gaman verður að sjá hversu færir krakkarnir eru orðnir. Sjálfur hef ég ekkert á móti tökuorðum, úr ensku eða öðrum málum, svo lengi sem það er rétt gert.“

Nánar er rætt við Helga Sæmund og fjallað um Syrpu Rapp í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert